E ftir átta ára stanslausar ábendingar til Icelandair að fara að drullast til að sinna heimafólkinu sínu og fljúga beint til Kanaríeyja þá loks varð af því nýverið. Og samkvæmt fregnum er troðið í hvert einasta flug. Ekkert að þakka Icelandair. En nú höfum við aftur klórað okkur til blóðs í haus því nýjasti áfangastaður Icelandair er Raleigh!

Kópasker Bandaríkjanna eða svo gott sem. Miðborg Raleigh í Norður-Karólínufylki. Mynd James Willamor

Einmitt það.

Nógu slæmt að halda úti dýrum feitum samningi við auglýsingastofu síðastliðin tvö ár til þess eins að stækka letrið í auglýsingum og sleppa þessum gulleita lit í nafninu.

Það á sama tíma og fyrirtækið hefur að hluta til verið í fjárhagslegri gjörgæslu fyrir einhvern versta rekstur í manna minnum. Gjörgæslu sem við, fólkið í landinu, höfum þegar greitt tugmilljarða fyrir af skatttekjum og búið að segja upp fjölda fólks hjá fyrirtækinu.

Og nú ætla menn til Raleigh?

Raleigh þekkir enginn Íslendingur eða svo gott sem. Fáir Íslendingar þekkja jafnvel fylkið Norður-Karólínu þar sem Raleigh er staðsett. Við svo heppin að muna að körfuboltagoðið Michael Jordan er frá Norður-Karólínu og jú, einn úr hópnum, skaust gegnum fylkið á tveimur dögum árið 2007.

Þessi áfangastaður er lítt fyrir landann og við setjum tíu þúsund kall á að fáir í Raleigh eru mikið að missa sig yfir ferðum til Evrópu. Þetta er, gróflega, á pari við að velja Bratislava í Slóvakíu sem næsta nýja áfangastaðinn. Ekki slæmur staður per se en sami fólksfjöldi, almenningur almennt í fátækari kantinum og fáir innlendingar að skröltast þangað nema yfir helgi eða svo.

Afskaplega lítið spennandi hér að finna. Skjáskot

En ók, látum það liggja milli hluta í bili. Hvernig tekst þeim að kynna staðinn?

Samkvæmt vef Icelandair er mest heillandi hvað hér er mikið af gáfnaljósum.

Jamms, alltaf plús við borgir ef þar finnst hugsandi fólk en ekki endilega sexí fyrir ferðalanga nema Icelandair sé að bjóða upp á námskeið í leiðinni. Eða hvaða ferðamaður fer með betri helminginn á næsta háskólasvæði eftir tíu stunda flugferð til að dúlla sér með teppi og nesti?

Þar næst segir Icelandair að besta stöffið sé golf. Það má að hluta til sanns vegar færa. Hér eru nokkrir af frægustu völlum Bandaríkjanna eins og Pinehurst númer 2. Verst að enginn spilar þar nema bóka með feitum fyrirvara og þá kostar hringurinn vart undir 30 þúsund krónum. Reyndar hægt að fá tilboð tvær nætur gistingu plús þrjá hringi fyrir 90 þúsund þegar þetta er skrifað. 180 þúsund á parið fyrir golfdúllerí í tvo daga er ekki á færi margra nema skattsvikara á borð við Júlíus Vífil.

Jú, svo segir Icelandair að verslunarsvæðin séu aldeilis príma. Hægt að fata sig upp fyrir klink og ingenting. En það er reyndar líka hægt í Bláu húsunum í Skeifunni fyrir utan að nota netið.

Hvað svo?

Jú, hægt að fylgjast með íshokkíliðinu Carolina Hurricanes í beinni segir Icelandair. Einn úr ritstjórn mikill íshokkíaðdáandi og þess vegna vitum við að enginn Íslendingur getur fylgst með leik í NHL-íshokkídeildinni á þeim tíma sem Icelandair er að fljúga hingað. Það er einfaldlega ekki verið að spila neitt á þeim tíma.

Hvað svo?

Maturinn þykir góður. Jú, víst hægt að fallast á það en eðli máls samkvæmt eru hér jafnmargir góðir staðir og þeir eru vondir. Að borða hér er ekki ávísun á ógleymanlega máltíð. En svo má ekki gleyma að bæði Krispy Kreme og Pepsi koma frá Norður-Karólínu. Bæði fyrirtæki einhver þau verstu í veröldinni í öllu tilliti en kannski finnst Icelandair annað.

Hvað svo?

Jú, þjóðgarðurinn Great Smoky Mountains þykir móðins og víst heimsækja hann litlar 12 milljónir manns árlega. Sem þýðir feitar raðir í allt og allt þar plús þá staðreynd að frá Raleigh tekur sex klukkustundir að aka aðra leiðina. Mjög stutt heimsókn þangað kostar einn og hálfan sólarhring. Plús auðvitað að þau eru kölluð Reykfjöll vegna þoku sem oft er yfir öllu. Sem þýðir að þú sérð ekki neitt.

Hvað svo?

Jú, Atlantshafsströnd Norður-Karólínu er fyrirtak segir Icelandair. Strendur á heimsmælikvarða og góð söfn hér og þar. En þangað tekur þrjár stundir að komast bílandi aðra leið og allan daginn fram og aftur.

Og svo framvegis og svo framvegis.

Höfum bent á þetta síðastliðin fjögur ár en ítrekum hér: henda þessum forstjóraplebba á haugana eigi síðar en í gær. Punktur!

Óhrædd við að nota nífaldan heimsmeistara í hótelbókunum samkvæmt World Travel Awards hér að neðan. Það er eina tekjuleið okkur hér 😉