Fyrir alla þá sem hafa púls yfir 50 slögum eða svo er jafnan svo gaman að heimsækja hina æði frábæru borg Barcelona að elstu menn gleyma stund og stað.

Sem getur verið synd því í 60 kílómetra fjarlægð frá borginni  er að finna hið heimsfræga og stórkostlega Montserrat klaustur sem staðsett er í Montserrat fjalli í Montserrat þjóðgarðinum. Sem, nota bene, er einn allra besti staðurinn í allri Katalóníu til útivistar og gönguferða.

Klaustrið glæsilega úr fjarska. Best er að heimsækja eldsnemma eða seint til að losna við allt of mikinn fjölda ferðamanna

Klaustrið glæsilega úr fjarska. Best er að heimsækja eldsnemma eða seint til að losna við allt of mikinn fjölda ferðamanna

Heimamenn segja að Montserrat, sem merkir tæknilega skorið fjall eða fjallskorningur, en hér er merkingin þó Fjallið helga, sé það sem hver og einn vill að það sé og meina að þó klaustrið fræga sé helsta aðdráttaraflið fjölgar þeim mjög er þangað fara til þess eins að njóta. Hér er ljúft að ganga um og klifurkappar finna nóg við hæfi. En fyrir Jón Jónsson ferðamann er það klaustrið sem trekkir.

Montserrat klaustrið er afrakstur þess að einhverjum datt í hug á áttundu öld að planta eins og einu klaustri eins hátt upp í hrikalegt fjall og frekast var unnt. Til að gera flókið mál einfalt var ákveðið í þokkabót að hafa klaustur þetta stórt, mikið, glæsilegt og að hluta til fellt inn í bergið.

Það væri barátta við vindmyllur að reyna að koma til skila hversu stórfenglegt klaustur þetta er með orðum einum að vopni. Því miður hefur aðsókn ferðamanna, innlendra og erlendra, aukist svo mjög að sá hluti klaustursins sem ferðamenn hafa aðgang að er nú rekið af einkaaðilum svo munkarnir sjálfir geti sinnt sínu innra starfi í friði. Ekki þarf að spyrja að því að hér hafa líka risið barir, veitingastaðir og annað það sem á alls ekki heima hér.

Ekki aðeins er klaustrið sjálft tilþrifamikið heldur og náttúrufegurð hér stórkostleg. Mynd Turisme de Montserrat

Ekki aðeins er klaustrið sjálft tilþrifamikið heldur og náttúrufegurð hér stórkostleg. Mynd Turisme de Montserrat

Hér er rekin margvísleg starfsemi af munkunum og má þar nefna trúarbragðakennslu og útgáfu trúarlegra rita. Þeir sjá líka enn um allar messur sem er eini tíminn til að sjá þá að störfum.

Fernt er það sem helst heillar aðkomufólk hér að frátöldu stórkostlegu útsýninu af fjallinu og ævintýrinu að komast hingað ef ekki er ekið. Í fyrsta lagi er það styttan af Svörtu Madonnu, verndardýrlingur musterisins, sem hangir fyrir ofan altari kirkjunnar. Bíða verður jafnan í langan tíma ætli fólk sér að skoða hana því margir telja það boða lukku að sjá hana og snerta.

Kirkjuhúsið sjálft er engin smásmíði og afskaplega falleg bygging í endurreisnarstíl. Hún er forvitnileg bæði í andlegu tilliti en ekki síður fyrir arkitekta og áhugafólk um byggingar og byggingalist. Það er að sjálfsögðu í kirkjunni sem Montserrat kórinn heldur tónleika sína en það er drengjakór og einn sá frægasti þeirra í veröldinni. Þeir syngja opinberlega tvisvar á hverjum degi og er opinn öllum gestum. Sömuleiðis eru messur hér tvisvar alla daga ársins og þær einnig opnar ferðafólki.

Síðast, en fráleitt síst, þá eru hér frábært listasafn beint undir torgi kennt við heilaga Maríu. Montserrat safnið, Museu de Montserrat, geymir ekki verk eftir neina aukvisa heldur eru þar á veggjum listamenn á borð við Picasso, Dalí, Miró og Degas svo fáir séu nefndir. Aðgangur að safninu kostar 1.100 krónur.

Margir taka þann kostinn að leigja bíl og keyra hingað. Akvegur er alla leið að klaustrinu og er það fljótlegasta leiðin. Hins vegar er einnig hægt að taka rútu og lest gengur líka upp og niður langleiðina. Sumir kjósa skipulagðar ferðir og brúka þá kláfferju með tilheyrandi útsýni. Það er lífsreynsla út af fyrir sig sem auðvelt er að mæla með enda fjallið hátt og bratt.

Rúma klukkustund tekur að komast hingað frá Barcelóna og alveg óhætt að taka frá hálfan dag að lágmarki ætli fólk sér að njóta komu hingað. Hér er því miður engin leið til að njóta án herskara af fólki og skiptir engu hvenær árs Montserrat er heimsótt. En sé ró í hjarta og tíminn nægur hefur það engin áhrif.