Tíðindi

Dýr er Hafliði allur.. og Úrval Útsýn

  03/10/2009maí 12th, 2014No Comments

Íslendingar eru ekkert frábrugðnir öðrum þjóðum að því leyti að þeim fjölgar árlega sem vilja annars lagið ferðast til framandi staða en þar er því miður ekki um auðugan garð að gresja hér á landi. Í þau skipti sem í boði eru ferðir annað en til vinsælla staða í Evrópu eru þær skýrðar „sérferðir“ eða „ævintýraferðir“ og öll álagning margfaldast.

Gott dæmi um þetta er áramótaferð Úrval-Útsýn til Tælands og Kambódíu en ferðin er með leiðsögn og áætlunin metnaðarfull mjög eins og sjá má hér. En halda mætti að verðlagningin hafi verið ákveðin árið 2007 því ferðin fyrir einstakling kostar litlar 589.720 krónur. Eðlilega er verð pr. einstakling ekki auglýst þannig eins og sjá má heldur á manninn miðað við tvo saman. Þá greiðir einstaklingurinn „aðeins“ 459.900 krónur eða þessir tveir saman samtals 919.800 krónur. Það kostar sem sagt tæpar milljón krónur fyrir hjón eða par að eyða fjórtán dögum í Asíu með Úrval Útsýn. Það gerir 65.700 krónur hvern einasta dag í tveimur af ódýrari löndum heims!

Reyndar má fara enn lengra með þetta ruglverð þar sem ferðin er í raun aðeins tólf daga ef frá eru taldir þeir tveir sem fara að mestu í ferðalagið til og frá og nýtast ekkert. Þá er dagurinn kominn í 76 þúsund krónur. Lengi má láglaunamaðurinn safna fyrir slíku ferðalagi.

Að síðustu er vert að taka fram að flugið til og frá í tilviki ÚÚ er með Aestreus flugfélaginu, öðru nafni Iceland Express, en vélar þeirra eru eins og flestum er kunnugt hannaðar fyrir styttri flug þannig að hætt er við að lítið sætisbil eigi eftir að gera einhverjum lífið óbærilegt á langfluginu til Tælands.

Heil þriggja mínútna leit á vefnum leiddi í ljós ferð frá Bretlandi á svipuðum nótum. Hægt er að fá fjórtán daga ferð til Tælands með stoppi á þremur stöðum í landinu frá 9. janúar á 153 þúsund krónur eins og sjá má hér. Vissulega ekki samsvarandi ferð en þarna er allavega verðlagningin töluvert eðlilegri og jafnvel budda hins venjulega launamanns á Íslandi mundi ráða við slíkt. Auðvitað þarf að bæta við 30 – 35 þúsund krónum fyrir flugið héðan til Englands en samtalan er engu að síður aðeins kringum 190 þúsund krónur á mann eða 380 þúsund fyrir tvo saman.

Það er 540 þúsund krónum ódýrara en áramótaferð ÚÚ á sömu slóðir.