E nginn skortur er á dekurstöðum í heimsborginni París. Þvert á móti er gnótt slíkra staða svo mikil að hætta er á að valkvíði sæki að fólki. Það er þó einn veitingastaður sérstaklega sem fólk ætti að hafa bak við eyrað því ferð þangað lifir lengi í minningunni.

Útsýnið er magnað en maturinn enn magnaðri á Le Jules Verne. Mynd LJV

Útsýnið er magnað en maturinn enn magnaðri á Le Jules Verne. Mynd LJV

Hér erum við að tala um hinn fræga veitingastað Frederic Anton, Le Jules Verne, en sá er einn þeirra staða sem kom Anton á kortið sem einum af fremstu matreiðslumönnum heims.

Ólíkt flestum öðrum toppklassa veitingastöðum í París er það ekki aðeins dýrindis maturinn sem njóta má á Le Jules Verne. Ekki síður yndislegt er útsýnið.

Le Jules Verne er staðsettur í 125 metra hæð í Eiffel turninum fræga og eins og gefur að skilja er ekki amalegt að sitja þar í ljúfum félagsskap og njóta.

Þó veitingastaðurinn sé kannski ekki ódýr á íslenskan mælikvarða þá setur það engan á höfuðið að taka gott kvöld hér. Fimmrétta kvöldverður kostar manninn kringum 40 þúsund krónur fyrir utan drykki. Þyki einhverjum það of mikið er ráð að kíkja hingað í hádeginu í staðinn þegar þrírétta hádegisverður kostar um 18 þúsund á manninn. Ekkert gefins en þess vegna er þetta líka kallað dekur svona ef þú vilt gera eitthvað extra með betri helmingnum.

Þess skal gæta að vera klædd í fínasta púss því hingað inn fer enginn á gallabuxum. Sömuleiðis er nauðsyn að panta borð og það með eins góðum fyrirvara og mögulegt er. Hér er oft fullbókað hálft ár fram í tímann. Bókun fer fram á vef Le Jules Verne.