Þ ó hvergi séu til nákvæmar tölur um minniháttar glæpi sem hægt er að bera saman með auðveldum hætti eru fræðingar á því að allra hættulegustu borgir Evrópu hvað viðkemur vasaþjófum séu einkum París og Barcelona.
Illu heilli er vasaþjófnaður og aðrir minniháttar glæpir gegn ferðamönnum á uppleið. Þar oft um að kenna sífellt dýpri gjá milli þeirra sem eiga og eiga ekki samkvæmt rannsóknum og meðan sú gjá dýpkar eykst hættan á að ferðamenn verði rændir víðast hvar í heiminum.
Borgaryfirvöld í Barcelona eru lítt hrifin af því að vekja athygli á þjófnaði enda ferðaiðnaður risastór hluti af tekjum borgarinnar. Sama gildir um París en þar reyna menn þó ekki að fela vandann.
Og sá vandi er risastór. Aðeins tvö ár eru síðan safnverðir í hinu heimsfræga Louvre lögðu tímabundið niður störf. Ekki vegna kjara eða launa eins og oftast er raunin heldur til að mótmæla sífellt ágengari þjófum inni á safninu. Þjófar í París eru með öðrum orðum alls staðar og alls óhræddir.
Franska tímaritið 20 Minutes tók saman fyrir skömmu nokkur ráð til handa ferðamönnum á vappi um París og hvernig fólk ætti helst að verja sig fyrir þjófnaði. Greinarhöfundar benda meðal annars á að engum sé hægt að treysta og allra síst fallegum börnum. Það kemur nefninlega í ljós að glæpaflokkar og misyndismenn nota hópa barna og unglinga oft á tíðum til að freista gæfunnar í vösum ferðamanna. Mörg barnanna eru lamin og þeim misþyrmt ef þau ná ekki 300 til 400 evrum af fólki daglega. Þau hafa því lítið val. Leiða má að því líkum að sama sé uppi á teningnum í mörgum öðrum borgum.
A) Jarðlestirnar eru allra vænlegasti staðurinn fyrir vasaþjófa enda troðningur mikill og ferðafólk oft annars hugar. Allra verst er ástandið á leið 9 en þar eru bekkir þéttsettnir af þaulvönum þjófum alla liðlanga daga. Ráð er þurfi fólk að nota þær að setjast eða standa eins fjarri hurðum og hægt er. Margir þjófar grípa veski og töskur andartaki áður en dyrnar lokast og eru komnir út á andartaki. Engin leið er að komast út á eftir þeim við slíkar aðstæður.
B) Vanir menn í faginu eru mættir eldsnemma á lestarstöðvarnar og fylgjast grannt með öllum þeim er virðast syfjulegir, annars hugar nú eða beinlínis þunnir eftir að hafa fengið sér einu rauðvínsglasi of mikið kvöldið áður. Það er nefninlega auðveldast að ræna þá sem ekki eru hundrað prósent í lagi og jafnvel þó þeir uppgötvi þjófnaðinn er enginn með dúndrandi hausverk að fara að standa í miklum eltingarleik við frísk ungmenni.
C) Annað trix sem vinsælt er í París mætti kalla miskunnsama Samverjann. Þá leikur hópur þjófa þann leik að missa einhver verðmæti í götuna eða gólfið. Velflest vel gefið fólk sem eftir tekur er gjarnt á að taka hlutinn upp og láta viðkomandi vita en það er á meðan fólk beygir sig niður sem aðrir liðsmenn tæma vasana. Mun betra að kalla á viðkomandi og láta vita en ekki beygja sig og fetta til hjálpar.
D) Á stöðum þar sem mannþröng er mikil eins og í verslunargötum eða lestarstöðvum er eitt óbrigðult ráð til að komast að því hvar fólk geymir verðmæti sín. Einhver öskrar „þjófur“ og leikur mann sem misst hefur veski sitt eða verðmæti. Mjög margir sem það heyra leggja ósjálfrátt hönd sína á veski sitt og verðmæti og þeir sem með fylgjast vita þá upp á hár í hvaða vasa verðmætin eru geymd. Vera skal sérstaklega á verði við þær aðstæður.
E) Eitt elsta trixið í bókinni er þegar einhver hellir óvart yfir þig drykk eða köku eða öðru slíku. Sá verður miður sín strax og fær í lið með sér annan aðila sem kemur reiður aðvífandi og skammar þann fyrsta fyrir brussugang og leiðindi. Báðir aðilar og jafnvel sá þriðji líka aðstoða svo fórnarlambið að hreinsa fötin og kveðja að því loknu. Og auðvitað með öll helstu verðmæti með sér. Ekki þiggja neina hjálp við slíka uppákomu.
Svo er alltaf hægt líka að klæða sig eins og útigangsmaður og baða sig ekki vikum saman. Þjófar hafa yfirleitt engan áhuga á slíku fólki 🙂