Þ ó íbúafjöldi Stokkhólms telji aðeins rúmlega tvær milljónir er borgin sú afar víðfem. Gamla Stan, Östermalm, Djurgården, Flysta og hin 76 hverfi borgarinnar hafa mörg hver upp á eitthvað að bjóða. Eina góða leiðin til að fá yfirsýn yfir allt saman eða því sem næst er með því að skottast með lyftum upp á kúluhöllina Globen.

Langbesta leiðin til að átta sig á legu Stokkhólms á augabragði. Mynd StockholmIcon
Formlega heitir mannvirkið Ericsson Globe og er auðséð víða að úr borginni. Þessi hvíti hnöttur er, eftir því sem Fararheill kemst næst, enn stærsta hnöttótta mannvirki veraldar en húsið er upprunalega íþrótta- og tónleikahöll og þar fara reglulega fram viðburðir.
En fyrir ferðamanninn er sænskt íshokkí kannski lítið spennandi en mögnuð útsýn yfir borgina í heild sinni öllu meira. Þá er þjóðráð að kaupa miða í Ericsson Skyway. Það fyrirbæri er útsýnislyfta sem flytur fólk hægt og bítandi þvert yfir Globen og því hægt að sjá mestallt það flæmi sem saman telst til höfuðborgarinnar. Ferðin tekur rétt um 20 mínútur yfir Globen og miðaverði nokkuð stillt í hóf miðað við Svíþjóð eða rétt um tvö þúsund krónur á fullorðinn einstakling.
Túrinn er ekki fyrir alla. Lofthræddir eru margir lítt spenntir enda hæsti punktur í 130 metra hæð en ritstjórn Fararheill mælir með túrnum og það eins snemma ferðalags og hægt er. Það er nefninlega okkar reynsla að því fyrr sem við fáum einhverja mynd af borginni í hugann því auðveldar er að rata og þvælast um án þess kíkja á kort á fimm mínútna fresti. Það er þannig sem við njótum borgarferða mest 🙂