Skip to main content

Það var ekki í fyrsta skipti og varla það síðasta heldur en fyrir nokkru síðan varð banaslys í Feneyjum sem ólíkt fyrri slysum þar virðist ætla að draga dilk á eftir sér.

Of mikið af því góða orðið í Feneyjum

Of mikið af því góða orðið í Feneyjum

Þýskur ferðalangur kramdist til bana í Stóraskurði, Canale Grande, þegar hann reyndi að bjarga þriggja ára dóttur sinni sem fallið hafði útbyrðis úr gondóla. Hann klemmdist milli báta og lést að því að talið er samstundis en öðrum tókst að bjarga dóttur hans.

Það kann að virðast skringilegur dauðdagi við fyrstu sýn þangað til fólk skoðar tölfræðina.

Á hverju andartaki, hvern dag ársins eru á ferðinni um hinn fremur litla Stóraskurð um það bil 440 gondólar, yfir 200 spíttbátar og fleiri tugir vélknúinna vaporetti sem eru strætisvagnar þeirra heimamanna og á sífelldri ferð milli staða í skurðinum.

Þarna er því töluverð traffík samkvæmt þessum tölum sem segja þó aðeins hálfa söguna því annar eins fjöldi báta er á ferð um Stóraskurð annarra erinda en til fólksflutninga. Bátar og ferjur sem flytja þann varning sem ferðamenn kaupa og matvæli sem heimamenn treysta á að fá í verslunum sínum. Fyrir utan auðvitað þann fjölda heimamanna sem fara sjálfir um á bátum sínum.

Og þótt það sjáist lítt í kynningum ferðamálaráðs borgarinnar er oft á tíðum verulegur umferðarhnútur á vinsælustu stöðum.

Slysið sem fyllti mælinn

Lengi hafa bæði íbúar og borgaryfirvöld haft af því áhyggjur að fjöldi ferðamanna til Feneyja sé orðinn of mikill en staðið ráðalaus hjá árum saman meðan þeim fjölgar og fjölgar. Ekkert útlit fyrir annað en aukningin haldi áfram því það er með engu góðu móti hægt að takmarka aðgengi fólks að borgum. Jafnvel þó sú borg sé hálf undir sjó.

En nú er mælirinn fullur hjá mörgum og þar á meðal borgarstjóranum sem hefur fengið stjórvöld til liðs við sig til að leysa vandamálið eða að minnsta kosti bregðast við. Hugmyndir sem nú er rætt um er að takmarka fjölda báta á Stóraskurði yfir háannatíma.

Önnur hugmynd að banna alfarið umferð skemmtiferðaskipa að borginni en slíkt hefur mjög færst í vöxt. Skipin færa vissulega þúsundir ferðamanna á staðinn sem allir eyða peningum en mengun af þeim er mikil og þau eru það stór að öldugangur frá þeim er talinn geta eyðilagt gamlar og lúnar undirstöður þeirra húsa sem næst eru Feneyjalóni.

Innantóm skurn

En kannski þarf engar aðgerðir til að mati sumra. Sagan hefur sýnt að þegar fjöldi fólks fer yfir ákveðin óljós mörk á sama staðnum fær nægur fjöldi nóg af og hverfur annað. Það á sannarlega við um íbúa sjálfa en fjöldi þeirra er aðeins helmingur þess sem hann var fyrir 20 árum enda hægt að fá góða peninga fyrir kytru í bænum og sífellt fleiri íbúðir standa auðar ellefu mánuði ársins þegar erlendir eigendur eru fjarri.

Og um það eru flestir sammála sem komið hafa oftar en einu sinni til Feneyja að borgin er fyrir alllöngu orðinn innantómur ferðamannastaður og hvergi fæst pláss né tími til að njóta hlutanna. Kaupmenn njóta góðs af því eftirspurn er svo mikið umfram framboð að verðlag í miðborg Feneyja er talið þrefalt það sem gerist í öðrum borgum landsins að meðaltali.

Þangað til það gerist gætu borgaryfirvöld þrengt að ferðamannageiranum eftir megni og freistað þess að fá annars konar þjónustu í borgina. Ella mun flæða yfir hina fögru Feneyjar löngu áður en hlýnun jarðar hækkar yfirborð sjávar sem mun, fyrr en síðar sökkva borginni alveg.