Skip to main content

Þú last þetta ekki á Fararheill.is ef einhver spyr en nýleg tilraun til að fá söluskatt á vörum í tveimur verslunum í Seattle vestur í Bandaríkjunum felldan niður gekk eins og í góðri sögu og vandræðalaust. Ágætur aukasparnaður ef fólk þorir því hér er hæsti söluskattur lagður á í Bandaríkjunum öllum.

Ekki sakar að fara fram á niðurfellingu söluskatts í verslunum í Seattle. Það versta sem gerist er neitun.

Svo er mál með vexti að Washington fylkið er eitt tveggja í Bandaríkjunum öllum þar sem viðskiptavinir frá öðrum fylkjum sem ekki leggja söluskatt á vörur fá söluskatt niðurfelldan svo lengi sem þeir óska eftir og sýna staðfestingu þess að þeir séu búsettir í söluskattslausu fylki.

Þetta er ekkert auglýst sérstaklega en verslunarfólk veit af þessu og gerir ekkert mál úr því þótt spurt sé.

Einn Íslendingur lét á þetta reyna að gamni tvívegis nýlega og viti menn, það gekk vandræðalaust jafnvel þó í bæði skipti hafi afgreiðslufólkið glott aðeins í kampinn enda viðkomandi búsettur á Íslandi en ekki í söluskattsfrjálsu ríki.

Söluskattur á vörur í Seattle er 9,5 prósent og því samsvarar þetta tæplega tíu prósenta sparnaði sem getur sannarlega munað um. Sjálfsagt að spyrja og það versta sem gerist er að fólk fær nei. Það er ekkert hættulegt.