L estarferðalög heilla margan Íslendinginn eins og aðra og veit ritstjórn Fararheill til þess að nokkrir landar eru kolfallnir áhugamenn sem eyða megninu af sínum varasjóðum til að sjá lestir og ferðast með þeim um heim allan.

Aftur til fortíðar með Royal Scotsman
Ein ferð sem þeir og efalítið margir fleiri gætu eflaust hugsað sér að taka er ferð um Skotland með hinni „næstum“ heimsþekktu lest Royal Scotsman.
Margir þekkja ábyggilega Flying Scotsman sem er þekktari bróðir Royal Scotsman en Flying Scotsman heitir lestin sem fer milli London og Edinborgar og hefur gert stanslítið síðan 1862.
Royal Scotsman er allt annars eðlis. Sú er lúxuslest af gamla skólanum. Sams konar og sjá má í öllum þessum kvikmyndum sem gerðust þegar breska heimsveldið var upp á sitt besta, eða versta eftir því hvernig á það er litið.
Enn eru í boði ferðir um sveitir og hálendi Skotlands með Royal Scotsman og að flestu leyti er eldri venjum og hefðum viðhaldið. Slíkt er kannski ekki á allra færi enda ætlað ríkara fólki eins og reyndin var alla tíð. Um hálfa milljón króna á mann kostar til dæmis þriggja daga túr um Skotland í besta mögulega yfirlæti. En það kannski engin ósköp fyrir sum okkar sem geyma fjármuni fjarri skattayfirvöldum. Við hin þurfum að spara í nokkra mánuði 😉