Þ að er dálítið beggja blands að heimsækja stærsta sædýrasafn Evrópu og annað stærsta sædýrasafn heims; Sædýrasafnið í Lissabon.

Stórt og mikið og margt að undrast yfir í sædýrasafninu í Lissabon

Stórt og mikið og margt að undrast yfir í sædýrasafninu í Lissabon

Hið jákvæða er hversu stórkostlegt það er. Bæði byggingin sjálf og það sem inni í henni er er á heimsmælikvarða og lætur engan ósnortinn. Hið neikvæða hins vegar að eftir 50 mínútna rölt um ganga safnsins fær maður auðveldlega kökk í háls vegna þess að sömu tegundir fiska og allir dást að í safninu eru annaðhvort í útrýmingarhættu eða á leiðinni þangað.

Aðgangseyrir að safninu er 2.400 krónur og hverrar krónur/evru virði. Því er skipt niður í fimm hluta gróflega eftir heimsálfum og hvert heimsins haf á sinn eigin skála. Í þokkabót flögra um fugla og stöku dýr önnur sem tilheyra hverju svæði fyrir sig. Til að mynda hugsar Íslendingurinn heim á leið í Atlantshafsskálanum því þar vappa um lundar eins og þeir hafi aldrei verið annars staðar og una sér litlu verr en í Vestmannaeyjum. Þetta er því tæknilega séð meira en sædýrasafn.

Síðast en ekki síst er í miðju safnsins gríðarstórt ker með hundruðum tegunda fiska sem sjá má vítt og breitt um safnið frá hinum ýmsu sjónarhornum. Tilkomumikil sýn og ekki hvað síst fyrir smáfólkið sem varla trúir eigin augum.

Meðal annarra dýra sem óhrædd eru að sýna listir sínar í nokkurri nálægð má nefna nokkrar tegundir fugla og áberandi stuð er á nokkrum sæotrum í Kyrrahafsskálanum. Sama má segja um mörgæsirnar í Heimskautaskálanum sem skoða fólk af sama áhuga og við þær.

Tvímælalaust toppstopp sé fólk í Lissabon. Jafnvel er hægt að segja að heimsókn frá ströndinni í Algarve sé þess virði því til Lissabon er ekki lengra frá en tveggja stunda akstur. Svo fer fjarri að safnið sé hið eina markaverða í borginni sem er ein af skemmtilegri höfuðborgum Evrópu að okkar mati. Lesa má nánar um lystisemdir Lissabon hér.