Þ að allra dásamlegasta við ferðalög er að koma á slóðir sem fólk hefur á einhvern máta kynnst í fyrndinni og löngu skapað sér mynd af  í huganum. Svo var um ritstjórn Fararheill þegar Kofi Tómasar frænda var heimsóttur á ferð um Kanada.

Kofinn frægi sem var fyrirmynd bókarinnar um Kofa Tómasar frænda. Mynd HS

Kofinn frægi sem var fyrirmynd bókarinnar um Kofa Tómasar frænda. Mynd HS

Strangt til tekið er þetta ekki sá kofi Tómasar frænda sem rithöfundurinn Harriet Beecher Stowe skrifaði um í frægri skáldsögu sinni en sú skáldsaga var þó byggð á raunverulegum atburðum að stóru leyti og sá einstaklingur sem var fyrirmynd þeirrar frægu sögu var prestur að nafni Josiah Henson. Engin þekkt tengsl við Henson á Íslandi.

Henson þessi festi æviminningar sínar á blað þar sem hann lýsti þrælahaldi í meiri smáatriðum en áður hafði verið gert og skýrði frá baráttu sinni gegn þeim viðbjóði. Það var að mestum hluta á þeirri ævisögu og á þeirri persónu sem Stowe byggði skáldverk sitt og hlaut heimsfrægð fyrir.

Þess vegna er heimili Josiah Henson í dag þekkt og kynnt sem Kofi Tómasar frænda og hvort sem það er með réttu eða röngu er þangað gott að koma. Fjöldi gripa frá tíma Henson eru til sýnis og auðvitað hús hans og garður auk sögusýningar sem leiðir fólk í sannleikann um þann myrka kafla mannkynssögunnar þegar þrælahald þótti eðlilegasti hlutur.

En kannski kom mesta gæsahúðin af því að rölta út fyrir girðingu hússins þar sem það stendur, loka augunum og ímynda sér þann hrylling sem hér átti sér stað í skógum og ýmsum fylgsnum hingað og þangað þegar Henson var uppi á átjándu öld.

Kofa Tómasar frænda, Uncle Tom´s Cabin Historic Site, er að finna skammt frá bænum Dresden í Ontario-fylki í Kanada. Þangað eru um 300 kílómetrar frá Toronto þangað sem Icelandair flýgur beint en í leiðinni er ekki fráleitt að kíkja á Niagara-fossana og jafnvel rúnta inn til Detroit sem ekki er ýkja langt í burtu frá Dresden. Þá er hin kanadíska London alveg í leiðinni. Slíkur rúntur býður upp á marga skemmtilega möguleika.


View Kofi Tómasar frænda in a larger map