F relsi, frelsi og frelsi! Það er líklega það svar sem mótorhjólaunnendur gefa fyrirspurnum um hvað sé svo ægilega heillandi við að þeysast um á vélfáki fráum. Svo heillandi í raun að þeir sem prófa verða dolfallnir til æviloka.

Eldsneytisgjöfina í botn á þessum stað.

Eldsneytisgjöfina í botn á þessum stað.

En eldgamla Ísafold er kannski ekki best til þess fallin að njóta kraftmikilla mótorhjóla. Veður válynd og vegir vonlausir. Þá er kannski ráð að rúlla hjólinu með sér um borð í Norrænu og taka stímið til Evrópu.

Ritstjóri mótorhjólatímaritsins 2Wheels hefur tekið saman nokkrar af skemmtilegustu vegum sem mótorhjólagarpar geta nokkru sinni farið um. Þær eru í engri sérstakri röð:

♥  Stelvio fjallvegurinn, Ítalíu Ritstjóri 2Wheels er ekki sá eini sem telur þetta skemmtilegasta vegarspotta heims. Það gera líka ritstjórar hins vinsæla sjónvarpsþáttar TopGear. Stelvio, Passo della Stelvio, liggur um Alpana og gefur á köflum stórkostlega útsýn. En það er ekki útsýnið sem heillar mest heldur þröngur vegurinn meðfram snarbröttum hlíðunum og beygjum svo kröppum að minnstu mistök senda velflesta beint til eilífðarinnar. Minnir óneitanlega aðeins á gamla fjallveginn til Seyðisfjarðar en töluvert brattari, lengri og malbikaður.

Þessi vegarspotti hreint ekkert síðri heldur. Mynd corrado/meteo

Þessi vegarspotti hreint ekkert síðri heldur. Mynd corrado/meteo

♥  Verdon gljúfrin, Frakklandi Stórugljúfur Evrópu eru þau kölluð þessi áhrifamiklu gljúfur í suðausturhluta Frakklands. Djúp og falleg og vegirnir að mestu utan í bröttum hlíðum sem bæði gefa adrenalínkikk en fylla ekki síður hvern mann af virðingu fyrir náttúrunni.

♥  Transfagarasan fjallvegurinn, Rúmeníu Enn einn fjallvegurinn og nægilega brattur til að óvanir svimi við tilhugsunina.

♥  Bergen til Geirangursfjarðar, Noregi Þennan stórkostlega veg hafa þó nokkrir íslenskir mótorhjólagarpar þegar farið enda stutt að fara og var enn styttra þegar ferjan Norræna fór til Bergen. Illa hægt að lýsa þessari leið en stórkostlega falleg og skipst á djúpum fjörðum og háum fjöllum.

♥  Antrim strandvegurinn, N.Írlandi Strönd Norður Írlands er ótrúlega lík ströndum Íslands og því kannski minna spennandi fyrir Íslendinga. En þó malbik í stað rykugra slóða eins og raunin er oft hér.

♥  Amalfi strandvegurinn, Ítalíu Þennan spotta þekkja sennilega margir enda fjölmargar kvikmyndir gerðar hér. Allur vegurinn meira eða minna í bröttum brekkum við ströndina milli borganna Napolí og Salernó. Stórkostlegt útsýni og lögregla skiptir sér víst lítið af ökuföntum á þessum stað.

♥  Saranda vegurinn, Albaníu Þessi liggur frá strandbænum Saranda og til bæjarins Vlori í Albaníu. Útsýni í bland við hræðsluskrekk á köflum og umferð tiltölulega lítil.

Óhrædd við að nota nífaldan heimsmeistara í hótelbókunum samkvæmt World Travel Awards hér að neðan. Það er eina tekjuleið okkur hér 😉