
Fyrir mörgum er það líf og yndi að prófa ný vín. Þá er Genf í maí óvitlaus áfangastaður.
Ritstjórn persónulega hlynnt C og líkast til einhverjir fleiri vínkerar þarna úti. Sem er ástæðan fyrir að við mælum með að bóka flug til Genfar í Sviss í maí ár hvert því sé fólk á staðnum um það leyti opnast heill heimur víns og meðlætis flestar helgar þann mánuðinn.
Heimamenn kalla þetta Caves Ouvertes, sem bókstaflega merkir opnir hellar, en stendur í raun fyrir opinn dag hjá víngerðum landsins. Og í Sviss vill svo til að 60 prósent víngerða í Sviss eru staðsettar í grennd við Genf eða í Genfar-héraði.
Í Sviss er reyndar ekki um uppskeruhátíðir að ræða enda ekki alveg hitastig í Sviss til að ber fari að sýna sitt besta strax í maímánuði. En það er upp úr miðjum maí sem uppskera fyrri árs og ára er kynnt opinberlega af öllum víngerðum á einu bretti á opnum degi eða dögum. Nokkrir bæir eru sérstaklega góðir í þessu tilliti og þar ber bærinn Satigny höfuð og herðar yfir aðra.
Reyndar skipta vínræktarhéruð landsins milli sín helgum þennan mánuð. Víngerðir í Valois leggja sitt á borð fyrir gesti og gangandi aðra helgi mánaðarins, víngerðir í Vaud-héraði þá þriðju og í grennd við Genf leggja menn á borð síðustu helgina í maí.
Plúsinn við Genf og lokahelgina sá að ferðamálayfirvöld í landinu bjóða áhugasömum fríar ferðir frá borginni til þeirra smábæja þar sem kynningar fara fram. Súpergóð þjónusta og enginn mökkölvaður undir stýri þegar allt er liðið um lok.
Aðgangur er í öllum tilfellum frír en greiða þarf um 700 krónur fyrir fyrsta glas og ekki krónu meira þó bragðað sé á hundruðum tegunda til viðbótar.
Og já, við vitum að þú ert kannski að velta fyrir þér hvers vegna í ósköpunum við erum að benda á svissnesk vín. Það er jú ekki eins og þau séu heimsfræg eða merkileg.
En hefur þú prófað? Vissirðu að 98 prósent vína sem framleidd eru í landinu fallega eru ekki seld erlendis vegna þess að eftirspurn heimafyrir er svo mikil?