Skip to main content

Segjum sem svo að einhver þarna úti hafi fengið sig pollsaddan af slæmu veðri og vindum á klakanum það sem af er sumri og ætli til sólríkari staða á borð við Barselóna hvað sem tautar og raular þó fyrirvarinn sé skammur. Þeir hinir sömu gera gott mót með einföldum verðsamanburði.

Algjörlega eðlileg fargjöld aðra leið til Barselóna hjá lággjaldaflugfélagi…

Vorum beðin um að finna sólardvöl fyrir þriggja manna fjölskyldu með litlum fyrirvara og með fjármagn af skornum skammti.

Alvöru lággjaldaflugfélög bjóða sömu ferð allt að því fimmfalt ódýrar en Wow Air. Skjáskot

Fátt sólarlegt og ódýrt í boði beint héðan nema þá Spánn svona almennt. En ekki alltaf eins og sést á meðfylgjandi skjáskoti af vef Wow Air. Þar býður lággjaldaflugfélagið, sem oft kallar sig flugfélag fólksins, upp á flug AÐRA LEIÐ til Barselóna í byrjun júlí fyrir svo lítið sem 78.899 krónur á mann á ódýrasta farrými með ekkert meðferðis.

Ekki furða að herra Mogensen sé ríkari en andskotinn ef þetta hefur verið raunin hjá hans fyrirtækjum gegnum tíðina. En hin mesta furða að flugfélagið sem verðleggur skitið fjögurra stunda flug frá Keflavík til Barselóna allt upp í 80 þúsund krónur með ekkert meðferðis skuli dirfast að kalla sig lággjaldaflugfélag.

Gott og blessað. Mogensen má verðleggja flug síns fyrirtækis eins og hann vill og kýs. Öllu verra að annað flugfélag, hið norska Norwegian sem einnig býður beint flug milli Keflavíkur og Barselóna, er að selja sama pakka á milli 1200 og 1500 norskar krónur með sama fyrirvara í byrjun júlí. Sú upphæð miðað við gengi dagsins gerir gróflega 16 til 19 þúsund krónur á mann.

Með öðrum orðum, fyrir þá sem ekki kláruðu prósentureikning 101 í menntaskóla, þá þýðir það næstum FIMMFALDAN verðmun á nákvæmlega sömu vöru!!!

Kannski vaxa íslenskar krónur á trjánum þínum. Fyrir okkur sem eiga ekki slíkan garð er þjóðráð að versla við alvöru lággjaldaflugfélög…