Flugvélaframleiðandinn Boeing tilkynnti fyrr í vikunni um versta tap fyrirtækisins frá upphafi og enn sér ekkert fyrir endann á hörmungarsögu Boeing-Max véla fyrirtækisins. Rellan sú gæti barasta vel verið síðasti naglinn í kistu þessa fornfræga flugvélaframleiðanda.

Ein Max-véla Boeing. Ekkert gengur að ráða bót á vandamálum þeirra véla og bótagreiðslurnar gætu riðið Boeing að fullu.
Hvers vegna við hér fögnum því heils hugar að fyrirtæki sem hefur framleitt einhverjar áreiðanlegustu flugvélar heims um áratugaskeið er hugsanlega að deyja drottni sínum er einfalt að svara: Græðgi út í eitt.
Enginn vafi leikur á að lengi vel framleiddi Boeing einhverjar flottustu farþegavélar heims. Áreiðanlegar, dugmiklar og þægilegar fyrir farþegar og flugstjóra.
En svo tóku græðgissinnar við rekstrinum og Boeing tók feita skyndilega dýfu niður á við.
Það er nefninlega svo að stjórn Boeing hætti fyrir nokkru að reyna að framleiða flottustu rellur heims burtséð frá kostnaði og fór að reyna að heilla fjárfesta með sífellt meiri hagnaði. Fyrirtækið hefur undanfarin ár eytt lunganum af hagnaði sínum í endurkaup á hlutabréfum og drjúgum arðgreiðslum til hluthafa en aðeins hent nokkrum krónum í rannsóknir og nýjungar. Þveröfugt við það sem fyrirtækið gerði um fimmtíu ára skeið eða svo.
Alas, Boeing Max vélarnar voru billegri en keppinauturinn Airbus gat boðið sökum þess að Max-vélar Boeing eru ekkert annað en ný málning á gömlum grunni. Í stað þess að hanna og framleiða glænýja vél frá byrjun fór Boeing milliveginn til sparnaðar og hannaði nýja vél á grunni véla frá sjöunda áratug síðustu aldar. Svona svipað og ef Toyota myndi nota undirvagn Toyota Camry frá 1978 til að hanna nýjustu útgáfu Toyota Camry. Brilljant hugmynd (ekki.)
Eðli máls samkvæmt þegar menn stytta sér leið á áfangastað er hætt við veseni á leiðinni. Nú standa hundruðir Max-véla Boeing allt í kringum verksmiðju framleiðandans en ekkert bendir til þess að þær fái að fljúga á nýjan leik. Jafnvel þó vélarnar fái grænt ljós í framtíðinni eru vandfundir þeir sem stíga um borð áhyggjulausir. Max-vélarnar eru búnar að vera og það eru góð tíðindi fyrir þau fyrirtæki sem ætla að stytta sér leið í framtíðinni. Það eru nefninlega takmörk fyrir því hvað hægt er að greiða í arð á kostnað öryggis…







