Skip to main content

Nú þegar skóinn kreppir hjá Wow Air Skúla Mogensen gæti einhver haldið að flugfélagið myndi halda sem lengst í flugferðir sem skila feitum arði. Það virðist þó ekki vera raunin. Wow Air slúttar öllu flugi til og frá Alicante á Spáni strax þann 4. nóvember.

Alicante í vetur? Þá verður þú að leita annað en til Wow Air.

Þær þúsundir Íslendinga sem sækja Alicante heim að vetrarlagi verða því að leita annað eftir ódýrum fargjöldum. Að minnsta kosti yfir vetrartímann því sama hversu langt fram í tímann er leitað á bókunarvef Wow Air að engin finnast flugin til Alicante.

Ekki er útilokað að flug til og frá Alicante sé beinlínis óhagkvæmt fyrir Wow Air en miðað við að Wow Air hefur verðlagt það flug töluvert hærra en samkeppnisaðilar um langa hríð verður það að teljast langsótt. Kannski snýst málið meira um að Íslendingar eru ekki mikið fyrir að greiða formúgur fyrir bjór og samloku um borð; við jú vön því að láta taka okkur í þurrt hér heima og þurfum ekki á slíku að halda í flugi líka.

Til marks um að flugleiðin er ábatasöm þá klóruðum við hér okkur vel í haus þegar við vorum að skoða fargjöld hins norska flugfélags Norwegian milli Keflavíkur og Alicante í vetur. Virkilega súpergóð fargjöld sem svo snarhækkuðu verulega strax í nóvember. Úr því að vera sjö til átta þúsund aðra leiðina án farangurs í 20 til 30 þúsund aðra leið án farangurs.

Á þessu aðeins ein skýring: Wow Air hættir samkeppninni til og frá Alicante í byrjun nóvember.

Ágætt að hafa þetta hugfast fyrir þá sem sjá Torrevieja í hillingum í desember eða janúar. Annaðhvort að negla fargjöld núna eða fara krókaleiðir á staðinn úr því að Wow Air hefur gefið Alicante upp á bátinn.