Skip to main content

Það þurfti svo sem ekki að kunna að leggja saman tvo og tvo til að glöggva sig á hvers vegna fyrrum markaðsmaður ársins á Íslandi kaus að flytja flugfélag sitt í heilu lagi frá Íslandi til Lettlands. En jafnvel vel greint fólk áttar sig ekki á að Primera Air er að borga sínu fólki þvílík lúsarlaun að leitun er að öðru eins.

Milljarðamæringurinn Andri Már Ingólfsson. En hann borgar fólkinu sínu laun rétt yfir því sem telst vera þrælahald. Skjáskot

Primera Air, flugfélag sonar Ingólfs Guðbrandssonar, flýgur hátt þessi dægrin. Eða öllu heldur REYNIR að fljúga hátt með príma fargjöldum frá Evrópu yfir til Bandaríkjanna fyrir klink og kanil. Við segjum reynir sökum þess að þrátt fyrir afar lág fargjöld hefur ýmislegt bjátað á og flugfélagið fær afar slæma útreið á samfélagsmiðlum. Markaðsmaður ársins hér heima virðist ekki beint rokka úti í heimi.

En hvernig fer flugfélag að því að bjóða fargjöld yfir Atlantshafið allt niður í ellefu þúsund krónur á sardínufarrými með ekkert innifalið?

Einfalt svar við því. Þú borgar lægstu laun sem finnast.

Andri Már Ingólfsson, forstjóri og helsti eigandi Primera Air og þar með ferðaskrifstofunnar Heimsferðir, gerir sér far um að ráða fólk frá fátækri Rúmeníu, sendir það fólk til Malmö í Svíþjóð þaðan sem fólkinu er ekið til Danmörku til að sýna lipurð og lit sem flugþjónar um borð í vélum Primera Air frá Kaupmannahöfn.

Hvað fær svo fólkið fyrir sinn snúð? Jú, mánaðarlaun hjá Primera Air Andra Más nema heilum 107.700 krónum miðað við miðgengi dagsins. Þó aðeins ef unnin er full vinna. Ekkert orlof innifalið og ef fólk veikist fær það ekki krónu.

Nettur þrælahaldsfnykur af slíku ekki satt? Ekki svo að skilja að meðallaun í Rúmeníu séu hátt skrifuð. Fjarri því. Meðal útborguð mánaðarlaun eftir skatta samkvæmt opinberum tölum hagstofu landsins árið 2017 slefuðu í 60 þúsund krónur eða svo. Primera Air því að greiða aðeins yfir meðallaunum almennt eftir skatta. En þá gleymist að fólkið er víðsfjarri heimahögum og nýtur næsta engra réttinda sem við flest teljum sjálfsögð og eðlileg.

Smekklegt í meira lagi. Um að gera að styðja við slíkan viðbjóð með því að kaupa ferðir af Heimsferðum eða flug með Primera Air.

Við hér hengjum orður í brjóst Andra Más og verðlaunum í bak og fyrir. Danir hins vegar ætla í stríð við kappann og aðra þá sem notast við rúmenskt vinnuafl til að bjóða flug á klink og ingenting. Hið danska Netavisen skýrir nú frá því að dönsk verkalýðsfélög ætli að opna skrifstofu í Búkarest í Rúmeníu til að berjast gegn fyrirtækjum á borð við Primera Air, sem nýtir sér neyð fólks í fátækari löndum til að verða sér úti um hræódýrt vinnuafl.