V iltu skólabókardæmi um þúfu sem veldur þungu hlassi? Slíkt dæmi finnurðu sannarlega í pólsku borginni Wroclaw. En aðeins ef þú leitar.

Álfur en ekki út úr hól. Sannkölluð álfastemmning grípur marga þá sem heimsækja Wroclaw. Mynd Kuriositas

Borgin sjálf er ein ljúfasta miðaldaborg Evrópu að okkar mati. Það helgast af vel varðveittum byggingum og langri og merkilegri sögu og þá ekki hvað síst að Wroclaw hét annað og tilheyrði annari þjóð fyrir ekki svo mjög löngu síðan. Um það allt má fræðast í vegvísi okkar um Wroclaw.

Það þarf því að vera fúll á móti sem ekki finnur sig vel í borginni en jafnvel þeir fúlustu gætu tekið gleði á ný ef þeir prófa að leita uppi einhverjar af þeim æði skemmtilegu álfadvergum sem finnast ótrúlega víða um borgina.

Ágætt að vara sig á álfunum ef fólk er valt á fótum eftir barferðina í Wroclaw. Mynd BrettgoestoSweden

Álfadvergarnir eru allt að metersháar bronsstyttur sem komið hefur verið fyrir á ólíklegustu stöðum í gamla bænum og rétt utan hans. Fíngerðar og fallegar stytturnar vekja mikla athygli, svo mikla reyndar að álfaleit er orðin eitt helsta aðdráttaraflið. Ferðamálaráð borgarinnar gefur meira að segja út sérstakt álfakort nú til dags. Alls er talið að stytturnar, þekktar sem krasnale á frummálinu, séu í heildina um 330 talsins þó aðeins 74 þeirra finnist í gamla bænum.

Út af fyrir sig er forvitnilegt að vita af slíku æði í gamalli miðaldaborg. Enn forvitnilegra þó að engar slíkar styttur fundust í borginni árið 2005.

Það var þá sem listrænir gárungar í hópi sem kallar sig Orange, sem stóð upphaflega fyrir mótmælendur gegn kommúnistastjórninni í landinu, tóku sig til og komu fyrstu álfunum fyrir og það auðvitað leyfislaust. Síðan hefur þeim fjölgað ríkulega og styttunum oftar en ekki komið fyrir á ólíklegustu stöðum á veggjum, miðri göngugötu eða jafnvel hálffaldar bak við grindverk og í skúmaskotum.

Þrátt fyrir að borgaryfirvöld hafi verið lítt hrifin fyrst um sinn er álfaleit nú orðin ein heitasta afþreying ferðamanna til Wroclaw. Plúsinn við það að fjölmargt annað markvert er að sjá víðs vegar í borginni og álfaleitin ber því ferðafólk mun víðar en áður fyrr. Sem þýðir aðeins minni fjölda á vinsælustu stöðunum og meiri bisness fyrir bari og veitingahús sem ekki finnast akkurat í miðbænum.

Sem fyrr segir er hægt að fá álfakort á næstu ferðamálastofu hér og einnig leitarapp í símann. Slepptu því og valsaðu um án hjálpartækja. Mikið mun skemmtilegra

PS: Þegar þetta er skrifað er beint flug í boði frá Keflavík til Wroclaw með Wizz Air. Óvitlaust að nýta sér það 🙂