Þ að verður að teljast æði merkilegt að innlend tryggingafélög hafa nánast gefist upp á að auglýsa ferðatryggingar hvers konar. Slíkar auglýsingar afar fáséðar enda gengið út frá því að fólk almennt láti kortatryggingar sínar duga þegar farið er erlendis. En eru þær nóg þegar allt kemur til alls?

Rútuslys eru nokkuð algeng erlendis. Ert þú tryggður fyrir slíku? Mynd rtv

Rútuslys eru nokkuð algeng erlendis. Ert þú tryggður fyrir slíku? Mynd rtv

Það er meira en segja að kafa ofan í veröld ferðatrygginga og afar erfitt að fjalla um á skiljanlegu máli. Þaðan af síður einfalt að gera einhvers konar samanburð hvort sem er milli tryggingafélaga eða trygginga kreditkortafyrirtækja. Alls staðar er smátt letur þar sem hitt og þetta er undanskilið og jafnvel þó tryggingar dekki hlutina þá er afar misjafnt hversu hátt gjald skal greiða fyrir eða hvað hámark greiðslu er verði óhapp eða slys á ferð. Hjá sumum aðilum er smáa letrið, þar sem ýmsar undanþágur eru tilteknar, lengri lestur en það sem raunverulega er tryggt.

Það er vont mál því tryggingar eru það mikilvægar að þær verða að vera auðskiljanlegar og einfaldar. Vont mál sökum þess að ríkisstjórnir flestra vestrænna landa hvetja landa sína sérstaklega til að tryggja sig á ferðalögum þó reyndar engin slík hvatning finnist á vef utanríkisráðuneytisins hér. Vont mál vegna þess að þá geta komið upp ýmis vafamál eftir á sem almenningur gerir sér ekki eða illa grein fyrir. Það vill enginn standa í stappi og jafnvel þurfa að fara með mál fyrir dómstóla þegar alvarleg vafamál koma upp. Allt upp á borð og á skiljanlegu máli. Vafi á ekki að leika á neinu þegar kemur að lífi og limum fólks.

Þá verður líka að segjast eins og er að ferðatryggingar hafa ekki alveg fylgt nútímanum. Samkvæmt opinberum gögnum bæði vestanhafs og austan ferðast nú allt að helmingur fólks á eigin vegum og gerir eigin áætlanir og sleppir milliliðum eins og ferðaskrifstofum. Engar ferðatryggingar taka þó tillit til þess ferðamáta af neinni alvöru. Á Íslandi eru engar skammtíma tryggingar í boði fyrir einstaklinga. Lágmarkstími ferðatrygginga tryggingafélaga er eitt ár sem þýðir að fólk greiðir heilt ár fyrir vöru sem það þarf að nota í tvær til þrjár vikur á ári eða svo.

Hver er hættan?

Heilt yfir er hættan sennilega meiri en margur gerir sér grein fyrir. Árlega er talið að um 1100 til 1300 ferðamenn látist á ferðum sínum samkvæmt World Tourism Organization, UNWTO, og sú tala varfærin fremur en hitt. Bara í Mexíkó einni saman látast yfir eitt hundrað ferðamenn árlega, flestir Bandaríkjamenn. Aðeins nær okkur þá hafa, þegar þetta er skrifað, einir átta ferðamenn látist af slysförum á Tenerife á árinu og sex ekki lifað af ferð til Madeira. Dauðsföll eru þó sjaldgæf miðað við slys og óhöpp en hvergi er haldið utan um slíka tölfræði varðandi ferðamenn á heimsvísu.

Evrópa sleppur að mestu

Mjög almennt má segja að kortatryggingar, hvort sem er almenn kort eða þau dýrari, dekki mætavel flest það sem komið getur upp á á ferðalagi um Evrópu. Það fer þó aðeins eftir lengd ferðalags og ekki má gleyma að kort tryggja ekkert nema ferðin sé öll eða að stórum hluta greidd með kortinu. Það getur verið flókið að sanna slíkt ef fólk er að ferðast á eigin spýtur og kaupir ferðir, hótel eða þjónustu á mismunandi stöðum. Í viðbót við þær tryggingar fyrir korthafa er lágmark að fólk verði sér úti um samevrópskt sjúkratryggingakort, EHIC, sem tryggir lágmarks sjúkraþjónustu í öllum löndum Evrópusambandsins. Þá má ekki gleyma að sumir eru ferðatryggðir gegnum heimilistryggingu í ofanálag.

Trygging annars staðar lágmark

Enginn úr ritstjórn Fararheill hreyfir legg né lið annað en til Evrópu án sérstakra trygginga. Það vill enginn fá sendan reikning upp á hálfa milljón króna fyrir fótbrot í Orlando svo dæmi sé tekið. Heilbrigðisþjónusta vestanhafs er góð en rándýr og ekki þarf flóknar aðgerðir til að kostnaður fari upp fyrir sjúkrakostnað sem kreditkort dekka. Hvað þá ef sjúkraflug eða samfylgd er nauðsyn. Víða í Bandaríkjunum eru einkaaðilar sem sjá um sjúkraflug. Flókið getur verið að gera slíkt upp ef tryggingar vantar.

Ekki þarf að minnast á slys eða óhöpp í löndum þar sem heilbrigðisþjónusta er af skornum eða engum skammti. Hvað kostar að ferja slasaðan mann úr frumskógi Amazon? Fjöllum Nepal? Kredikortatryggingar dekka ekkert sex mánaða bakpokaferðalag um Asíu. Í okkar huga er það engin spurning að tryggja sig sérstaklega.

Allir á ritstjórn kaupa líka sérstaklega tryggingu gegn þjófnaði ef farið er með dýr tæki eða tól langt um veg. Óprúttnir aðilar eru alls staðar á götum úti og stundum inni á hótelum líka og vonlítið eða vonlaust að ætla sér að hafa auga á hlutum 24/7.

Láttu senda þér tilboð

Ef ætlunin er að fara í ljúfa og langa reisu langt út í heim er ráð að láta tryggingafélögin vinna fyrir þig en ekki öfugt. Láttu þau senda þér tilboð í ferðatryggingu miðað við þínar forsendur, skoðaðu smáa letrið gaumgæfilega og keyptu svo þá tryggingu sem best hentar. Það kostar þig um það bil hálftíma að senda skeyti á þær allar og óska tilboðs. Þá er líka auðveldara að njóta erlendis og láta áhyggjur ekki setja blett á góða ferð.