Skip to main content

Sorrí Stína ef hugmyndin var að heimsækja kanadísku borgina Edmonton á næstu vikum og mánuðum. Icelandair hefur slátrað þeim áfangastað en þó án þess að láta nokkurn mann vita.

Edmonton út þennan veturinn hjá Icelandair.

Skrýtið þetta. Flugfélagið með mökk af upplýsingafulltrúum á góðum launum og við fáum beint í æð að vita um dásemdir hinna og þessa áfangastaðanna vandræðalaust. En þegar eitthvað er miður jákvætt er eins og einhver hafi saumað fyrir munn sömu upplýsingafulltrúa…

Miður jákvætt gæti verið að Icelandair er eitt óstundvísasta flugfélag í Evrópu allri. Miður jákvætt gæti verið að flugfélagið upplýsir viðskiptavini aldrei nokkurn tímann um réttindi þeirra við tafir eða aflýsingar. Og svo gæti það þótt miður að slátra eins og einum áfangastað sísona.

Það hefði kallast heiðarlegt af Icelandair að tilkynna, eins og þeir tilkynna nýja áfangastaði með pomp og prakt, að tilkynna líka um þá áfangastaði sem flugfélagið hyggst gefa löngutöng. Enginn þyrfti þá að þræða klukkustundum saman gegnum handónýtan bókunarvef flugfélagsins til að finna flug til eða frá Edmonton í Kanada.

Edmonton í Kanada lenti nefninlega í gapastokknum hjá Icelandair í vetur en það veit ekki nokkur maður ennþá. Nema auðvitað þeir sem lesa Fararheill 🙂

Við búin að þræða bókunarvef Icelandair til og frá Edmonton frá október og langt fram í apríl á næsta ári. Engin bein flug í boði þá leiðina fyrr en í byrjun apríl á næsta ári. Edmonton er því allt í einu ekki heilsársáfangastaður Icelandair lengur.

Sem er dálítið miður því þótt Edmonton per se komist aldrei á verðlaunapall fyrir yndislegheit þá er borgin staðsett í allra fegursta héraði Kanada og þaðan auðveldlega komist í fimm stjörnu skíðabrekkur án þess að hafa mikið fyrir.