Kapp best með forsjá. Það sannindi sem hinn danskættaði Skúli Mogensen gleymdi um tíma þegar allt var í blóma í fluginu hér fyrir ári eða tveimur. Í stað þess að safna seðlum hægt og rólega til að búa sig undir verri tíma fór kappinn all-in eins og Kaupþingspollarnir árið 2007. Sem hefur aldeilis komið í bakið á þeim danskættaða.

Namaste til Nýju-Delí fyrir 19.900 krónur aðra leiðina Nú, fimm mánuðum síðar fæst flugfargjald á 29.900. Skjáskot
Fyrir tveimur árum leið varla vika án þess að Wow Air auglýsta nýja og misspennandi áfangastaði hingað og þangað. Nú líður varla vika án þess að Wow Air hætti ekki við flug til hinna og þessara áfangastaðanna. Skólabókardæmi í viðskiptafræði um innihaldslausa greddu.
Við hér gætum otað okkar tota og montað okkur af því að hafa séð fyrir löngu að flugferðir til krummaskuða í miðvesturríkjum Bandaríkjanna yrðu ekki langlífar en nóg er af greinum þess efnis á vef okkar fyrir áhugasama. Í þessu tilfelli kíktum við aðeins aftur á Indlandsferðir Wow Air sem hefjast í desember næstkomandi.
Flugfélag herra Mogensen er að veðja duglega á Indlandsferðir og hefur eytt verulegum fjárhæðum til að koma slíku á koppinn. Ekki aðeins það heldur hefur íslenska ríkið þurft að eyða dágóðum upphæðum af skattfé landsmanna til að manna sendiskrifstofu í Indlandi til að græja vísa fyrir þann fjölda Indverja sem áhuga hefur á flugi til Íslands og áfram þaðan til Evrópu eða Bandaríkjanna.
Hugmyndin í teóríunni góð. Líkt og í Kína fjölgar þeim ört Indverjunum sem eignast peninga, komast í álnir og þeir eins og aðrir vilja gjarnan ferðast og skoða heiminn. Sem er eðlilegasti hlutur í heimi fyrir hugsandi fólk. Það er jú satt og rétt sem forfeður okkar skrifuðu á sínum tíma: heimskt er heimaalið barn.
En er Indlandsflug Wow Air að rokka og róla?
Það er stór spurning með tilliti til að þetta er lengsta flug sem Wow Air hefur sett á dagskránna og reyndin er að því lengra sem flugið er því minna er á því að græða.
Auðvitað er hvorki herra Mogensen né fjölmiðlafulltrúar Wow Air að gefa neinar upplýsingar en það er hægt að lesa ýmislegt út úr bókunarvél flugfélagsins. Wow Air auglýsir nefninlega alltaf takmarkaðan fjölda sæta á lágmarksverði og þegar þau sæti eru seld hækkar fargjaldið jafnt og þétt.
Við tókum stöðuna á fargjöldum aðra leiðina með Wow Air til Íslands á indverskum vef flugfélagsins fyrir tæpum mánuði síðan. Um það má lesa hér en fyrir áhugasama þá fékkst flug frá Nýju-Delí til Keflavíkur, Boston, Detroit, Toronto eða Los Angeles niður í 20.700 krónur miðað við gengi rúpíu Indverja gagnvart íslenskri króna á þeim tíma eins og sjá má hér að neðan.

Nákvæmlega ekkert að þeim fargjöldum þó reyndar enginn farangur og ekkert annað hafi verið innifalið í þessum lægstu fargjöldum annað en sæti og kannski bros frá flugþjóni. Þetta er jú tæplega ellefu stunda flug og slíkt fyrir rúman tuttugu kallinn er feykilega vel boðið. Ekki hvað síst að fargjald til Íslands kostaði það sama og flug til Íslands og áfram til flottra bandarískra borga. Allt flug áfram frá Íslandi því tæknilega ókeypis.
Þennan daginn kíktum við aftur á fargjöld Wow Air á indverskum vef flugfélagsins og áttum von á verulegum verðhækkunum enda trixið hjá Wow Air eins og öðrum lággjaldaflugfélögum að hækka fargjaldið um leið og fimm til tíu sæti hafa verið seld á lágmarksverði og svo koll af kolli.
En eitthvað er ekki að stemma…

Ert þú að sjá það sem við sjáum?
Fargjöld aðra leið til Evrópu frá Indlandi hafa ekki hækkað um eina rúpíu á heilum mánuði og þegar aðeins eru tæpir tveir mánuðir þangað til fyrsta rella Wow Air hefur sig til flugs frá Indlandi!!!
Lægstu fargjöld kosta ennþá 13.499 indverskar rúpíur eða rúmlega 21 þúsund krónur miðað við gengi dagsins. Ennþá er ekkert dýrara að fljúga til Íslands eða fljúga til Íslands og áfram til New York eða Los Angeles!!!
Það segir sína sögu. Þá sögu að illa gengur að selja Indverjum flugmiða þrátt fyrir hlægilega lágt verð. Þetta á sama tíma og þotueldsneytisverð hefur hækkað um 13 prósent!!! Samt er flugmiðinn á sama verði og fyrir mánuði síðan.
Og hvernig kemur herra Mogensen svo fram við Íslendinga sjálfa?
Lesendum Fararheill ætti ekki að koma á óvart að herra Mogensen er ekki alveg svona gjafmildur gagnvart sínu eigin fólki. Langi einhvern út til Nýju-Delí á sama tímabili og að ofan er greint kostar túrinn fram og aftur að LÁGMARKI 65 þúsund krónur á lægsta farrými með ekkert meðferðis.

Mogensen er ekkert að bjóða Íslendingum nein sérstök kostakjör til Indlands og heim aftur. Neibbs! Kostakjörin eiga aðeins við um Indverja.
Súpergóð ástæða til að hætta viðskiptum við Wow Air ekki satt?







