Skip to main content

Desember 2015. Um borð í Bombardier hreyflavél milli Madeira og Azoreyja í slæmu veðri seint að kvöldi. Ókyrrð nánast frá upphafi alla leiðina og hún ágerðist stig af stigi. Svona ókyrrð sem er of mikil til að þú getir sokkið þér ofan í bíómynd, bók eða blað og gleymt stað og stund. Nægileg ókyrrð til að þú veltir fyrir þér hvað sé best að gera ef rellan steypist í hafið og þú lifir það af.

737 Max vél Boeing. Fáir vita að þrátt fyrir flottar uppfærslur eru Max-vélar Boeing byggðar á nákvæmlega sama flugvélaskrokki og fór fyrst í loftið árið 1967.

Fróðir segja að flughræðslu megi mestmegnið flokka í tvennt: annars vegar yfirgnæfandi hræðsla við að fara upp í loftið yfir höfuð og hins vegar hræðsluna við að vera hundrað prósent bjargarlaus þegar og ef eitthvað bjátar á í flugi. Með öðrum orðum; hræðslan við að setja líf þitt í hendur alls ókunnra flugmanna sem gætu verið dæmalaus fífl, fullir, fífldjarfir eða hundrað prósent atvinnumenn. Við þekkjum ekki flugmennina sem eiga að koma okkur frá A til Ö og við treystum flugvélum og þotum takmarkað. Hvað ef flugvirkinn sem yfirfór relluna fyrir brottför var enn þunnur eftir árshátíð flugfélagsins og gleymdi að setja mikilvæga skrúfu til að festa mikilvægan mótor… Það er þetta móttó hans Murphy´s: Það sem getur farið úrskeiðis, fer úrskeiðis einn góðan veðurdag.

Jamm, ýmislegt fer um hugann þegar flughræðsla er annars vegar og þá ekki síst þegar ókyrrð er af alvarlegri tagi. Lætin og hristingurinn þegar flugmenn rellunnar í ofangreindu dæmi hófu lækkun til lendingar voru svo mikil að annar hver farþegi ákallaði guð og aðrar himneskar verur. Aðrir fluttu sig um set og það jafnvel til ókunnugra til að halda í hendur og fá stuðning.

Flughræðsla er afskaplega eðlileg og enginn skyldi skammast sín fyrir slíkt. Öll hræðumst við hluti sem við þekkjum ekki og höfum enga stjórn yfir.

Sama gildir um flugmenn indónesíska flugfélagsins Lion Air sem hrapaði í hafið fyrir skömmu með þeim hörmulegu afleiðingum að tæplega 200 manns létu lífið. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar bendir flest til þess að flugmenn Lion Air hafi reynt fram á hinstu stund að bjarga því sem bjargað varð þegar rellan fyrirvaralaust hóf að steypast niður á við í miðju flugi. Kolldýfu sem nú þykir ljóst að sjálfvirkt kerfi vélarinnar hafi orsakað. Kerfi sem Boeing lét enga flugmenn vita af og því alls óljóst hvernig ætti að stöðva.

Alvarleg ókyrrð er nógu slæm og ef marka má vísindamenn mun ókyrrð aukast talsvert í framtíðinni með hlýnun jarðar.

Kerfið kallast MCAS en á mannamáli merkir það að í Max-vélum Boeing fer tiltekin sjálfstýring af stað ef kerfi vélarinnar meta það sem svo að að rellan sé að ofrísa í flugi. Ofris merkir að vélin fer of bratt upp á við en við slíkar aðstæður missa vængir vélarinnar getu til að lyfta rellunni og hún byrjar að hrapa afturábak.

MCAS-kerfið tekur yfir alla stjórn í Max-vélunum ef hætta er á slíku, inngjöf er aukin til muna og nefinu beint niður á við til að ná jafnvægi á nýjan leik. Sem er gott og blessað í flesta staði. Nema auðvitað að kerfi vélarinnar sé að beina rellunni niður vegna rangra upplýsinga og enginn hafi sagt flugmönnunum frá því hvernig á að ná tökum á vélinni við þær aðstæður.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem rannsóknarnefnd flugslysa í Indónesíu hefur úr svarta kassa Boeing Max-vélar Lion Air bendir flest til þess að MCAS hafi einmitt brugðist við í því fluginu. Og enginn hafði sagt flugmönnum Lion Air frá því að til væri slíkt kerfi og hvað þá hvernig bregðast ætti við.

Þó flugferðin til Azoreyja 2015 hafi verið ógnvekjandi í meira lagi þá kom þó aldrei til þess að sú rella steyptist endilöng í sjóinn á 600 kílómetra hraða. Sem voru hræðileg örlög farþega og áhafnar Lion Air í Indónesíu.

Og sennilega Boeing að kenna…