Eitt mál málanna þessi dægrin er hvort íslenska ríkið eigi með einhverjum hætti að koma til móts við flugfélagið Icelandair í þeim brotsjó sem það flugfélagið og öll önnur á hnettinum glíma nú við.

Á að nota skattfé til að bjarga einkafyrrtæki á borð við Icelandair? Skjáskot

Það má telja þau flugfélög á heimsvísu á fingrum handalauss manns sem EKKI HAFA ÓSKAÐ RÍKISAÐSTOÐAR þegar þetta er skrifað. Hjálparköllin meira að segja komið frá risafyrirtækjum á borð við framleiðandann Boeing sem hefur að mestu tæmt bankareikninginn og óskað eftir 50 milljarða króna ríkisframlagi til að byrja með. Þetta sama batterí og hefur eytt 50 milljörðum króna til að kaupa bréf í sjálfu sér undanfarin þrjú ár. Nú skal pöpullinn taka á sig tap meðan hluthafar djamma á Barbados fyrir arðgreiðslur síðustu ára.

Fordæmin eru þegar til staðar. Bretar ætla að hjálpa sínum flugfélögum, Svíar og Danir þegar poppað upp efnahagsreikning SAS og Norðmenn leggja Wideroe og Norwegian til drjúga fjármuni. Meira að segja skítblankir Ítalir hafa enn einu sinni lagt Alitalia lið.

Rökin með ríkisaðstoð

Það er auðvelt að færa rök fyrir ríkisaðstoð til handa Icelandair.

A) Þetta er eina alþjóðaflugfélag landsins á þessu stigi.

B) Meirihluti starfsfólks er íslenskt og fær greidd bærileg íslensk laun.

C) Flugfélagið heldur uppi stórum hluta af íslenskri ferðaþjónustu sem er starfsvettvangur þúsunda.

D) Fyrirtækið er lykilaðili þegar kemur að ferskflutningum til og frá landinu. EasyJet ekki að flytja mikinn fisk frá landinu eða vínber til landsins.

E) Ríkið er í ágætum málum fjárhagslega og getur orðið sér úti um fjármagn á kjörum sem fyrirtækjum bjóðast ekki.

F) Aðstæður á heimsvísu eru sannarlega einstakar í þessu tilviki og Icelandair fórnarlamb aðstæðna sem önnur flugfélög.

G) Lífeyrissjóðir eiga nánast helming allra bréfa í Icelandair. Sú fjárfesting er dauð og grafin með tilheyrandi afföllum fyrir lífeyrisþega landsins í framtíðinni ef fyrirtækið fær ekki aðstoð.

Miðað við upplýsingar Viðskiptablaðsins er það ekki spurningin um hvort ríkið aðstoðar Icelandair heldur hvenær. Þar verið að skoða lánalínur og eða lánaábyrgð ef ekki beina fjárhagsaðstoð. Ekki í fyrsta sinn sem ríkið ábyrgist rekstur Icelandair ef af verður.

Stærstu hluthafar Icelandair. Þar stærstur bandarískur fjárfestingarsjóður. Skjáskot

Viðskiptablaðið tiltekur reyndar líka að rekstur Icelandair hafi lengi verið þungur og stórtap verið raunin mörg síðustu ár. Hár launakostnaður sagður meginástæða að mati blaðamanns. Það vissulega hluti vandamálsins en stærsta ástæðan er hörmulegur rekstur. Stórtap hefur verið á fyrirtækinu allar götur síðan það hætti að gera út á Ísland og Íslendinga og hóf að nota Keflavík sem Hlemm yfir Atlantshafið. Þeir gleymdu grunninum og ef grunnurinn er ekki sterkur mun byggingin falla fyrr en síðar.

Rökin gegn ríkisaðstoð

A) Stærsti staki eigandi Icelandair er bandarískur fjárfestingarsjóður og fjöldi milljarðamæringa eiga stóra hluti. Hvers vegna ætti íslenska ríkið að púkka upp á slíka aðila?

B) Icelandair er einkafyrirtæki hvers hluthafar hagnast þegar vel gengur og ættu því vitaskuld að éta tapið þegar illa gengur.

C) Icelandair á tæplega 40 milljarða í eigið fé sem á að duga til að halda flugfélaginu á flugi í þrjá til fjóra mánuði að óbreyttu. Samt hefur fyrirtækið eytt tveimur milljörðum í kaup á eigin bréfum síðustu árin til að peppa upp hlutabréfaverð. Væri ekki slæmt að eiga þá tvo milljarða aukalega núna.

D) Lífeyrissjóðir landsmanna eiga mikið undir en það er fyrst og fremst vegna vitleysinga í stjórnum þeirra. Hugmyndin er að ÁVAXTA lífeyrir landsmanna en það eru lítil fimm ár síðan króna kom inn í kassann vegna bréfa þeirra í Icelandair. Kaupa lágt og selja hátt er 101 í viðskiptafræði og þar fá lífeyrissjóðir falleinkunn. Þeir læra ekkert af reynslunni ef ríkið bjargar alltaf hlutunum.

E) Ef ríkið sýnir Icelandair alltaf lit þegar á móti blæs hrannast upp fordæmisgildin. Hvað með hið nýja flugfélag Play? Ætti það flugfélag ekki að njóta þess sama? Og hvað með öll önnur fyrirtæki í landinu? Hvers vegna á flugfélag alltaf að njóta vafans en aðrir éta það sem úti frýs?

Ekki óútfyllt ávísun

Að þessu sögðu eru aðstæður auðvitað allsendis einstakar og vænlegra að hafa minnst eitt íslenskt flugfélag fljúgandi en ekkert, hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér. En ríkisaðstoð má ekki vera óútfyllt ávísun. Lágmark að þynna út hluti annarra en lífeyrissjóða og ríkið tæki þannig beinan eignahlut í flugfélaginu gegn aðstoð. Þá fengi ríkið einn stjórnarmann og helst stjórnarformann til að gæta að hagsmunum almennings því morgunljóst er að sitjandi stjórnarmenn og stjórnendur eru ekki á þeim buxunum.

Lækka þarf laun stjórnarmanna og stjórnenda prontó. Forstjórinn má fá þrjár millur mánaðarlega þegar fyrirtækið sýnir hagnað en annars ekki. Óþarfi líka að greiða stjórnarformanni 660 þúsund á mánuði fyrir tvo, þrjá kvöldfundi með snittum og kósíheitum. Reikningurinn vegna stjórnar og forstjóra á ársgrundvelli eru 60 milljónir rúmar. Það þarf margar fullar rellur til að dekka þann kostnað einan og sér.

Ríkið þarf að krefjast þess að flugfélagið selji aftur bréf fyrir þá tvo milljarða sem það hefur keypt á síðustu fimm árum. Hvert það fyrirtæki sem eyðir eiginfé sínu til að kaupa í sjálfu sér gerir varla ráð fyrir vandræðum og veseni þegar fram líða stundir. En vandræði og vesen er svartur svanur; afar sjaldgæfir en reka upp hausinn þegar minnst varir.

Ríkið þarf að setja þær reglur að engri starfsemi flugfélagsins sé útvistað til fátækari landa eins og Icelandair hefur hægt og bítandi verið að gera síðustu árin. Ef íslenskur almenningur á að hjálpa flugfélaginu verður öll starfsemi að vera hér á landi og starfsfólk með íslensk laun.

Aðeins þá er í lagi að sýna Icelandair lit fjárhagslega á kostnað landans.