Skip to main content

Ég hugsa ekki um alla eymdina. Ég eyði tímanum í að hugsa um allt þetta fallega sem er enn þarna úti.”

Orð að sönnu og tilvitnunin komin frá hinni ágætu Önnu Frank sem eyddi stórum hluta ævi sinnar í felum frá nasistum í Amsterdam á sínum tíma.

Og hvað hefði Anna getað verið að hugsa um til að slá á dags daglega eymd og almennan hrylling? Viktoríufossar koma upp í hugann…

Loftmynd af hinum gullfallegu Viktoríufossum í Afríku. Þeir verða ekkert mikið stórkostlegri fossarnir.

Með fullri virðingu fyrir stórglæsilegum fossum okkar eigin lands þá eru nokkrir aðrir fossar þarna úti sem taka fyrstu verðlaun. Iguazu-fossarnir á landamærum Paragvaí, Argentínu og Brasilíu, Englafoss í frumskógum Venesúela og Viktoríufossarnir á landamærum Zambíu og Zimbambwe í Afríku.

Viktoríufossar einhver magnaðasta náttúrusmíð jarðar og allir sem þangað stíga fæti ættu að fallast á það umorðalaust. Fossarnir ekki þeir hæstu, lengstu né vatnsmestu en enginn sem hér eyðir tíma gleymir þeirri sjón meðan sá lifir. Þeir eru hundrað prósent stórfenglegir og það mestanpart sökum þess fallega og þrönga gljúfurs sem fossarnir falla niður í 365 daga á ári.

Þar fellur Zambesi áin allt að því 108 metra niður í djúpt gljúfrið á sautján hundrað metra löngum kafla og þeytir öllum stundum upp svo mikilli vatnsgufu með tilheyrandi hávaða að heimamenn hér um slóðir kölluðu þetta lengi vel Sprengifoss sökum hávaðans. Eða nánar tiltekið „reykurinn sem skapar sprengingar.” Sem er öllu betra nafn en Viktoríufossar ef einhver spyr okkur enda þar aðeins nafngift bresks landkönnuðs sem fyrstur vesturlandabúa fann fossana atarna og var fljótur að tileinka Viktoríu, þáverandi drottningu Bretlands, heiðurinn.

Skömm að því að enn sé notast við það fáranlega nafn þegar Sprengifossar hljóma bæði eðlilegar og mun nær því sem heimafólk kallaði staðinn áður en bresk himpigimpi „fundu” staðinn.

Viktoríufossarnir eru mikilfenglegastir þegar mest er í Zambesi ánni sem er á tímabilinu frá janúar til júlí ár hvert en mun minna er í ánni utan þess tíma. Það aftur merkir að ferðafólki gefst tækifæri á að sýna sig og monta á samfélagsmiðlum á fossbrúninni í svokölluðum Djöflapotti, Devils Pool, sem gefur að líta hér að neðan, ef fólk þorir.

Viktoríufossarnir standa á landamærum Zambíu og Zimbambwe. Tiltölulega auðvelt er að þvælast hér á milli þó einhverjar tafir verði reglulega á landamærunum. Hér eru fín þekkt hótel og túrismi það stór iðnaður að hér finnst flest það sem vestrænt ferðafólk getur vanhagað um vandræðalaust.

Fróðir eru almennt á því að betra sé að skoða fossana Zambíu-megin. Það þýðir reyndar bleytu og vosbúð því vatnsúðinn frá fossunum lendir að megninu til þeim megin. Það er líka þeim megin sem bestu myndirnar fást.

Á hinn bóginn kemst fólk í mesta návígi við fossana Zimbambwe-megin og það er líka þar sem Viktoríufossaregnskógurinn finnst. Langt orð vissulega en sökum þess hve mikið magn af vatnsúða berst frá fossunum þá þrífst hérna megin þessi líka fyrirtaks regnskógur þó lítill sé. Og auðvitað dregur regnskógur að sér hin forvitnilegustu dýr í massavís.

Þó túristalegt sé er þjóðráð að notast við ferðaþjónustuaðila á svæðinu ef tími er af skornum skammti. Þá færðu allt það besta á silfurfati þó það kosti sitt. Auðvitað er vel hægt að njóta svæðisins á eigin vegum en það kemur líklega til með að kosta meira þegar upp er staðið og engin leið að koma í veg fyrir að óprúttnir nýti sér vankunnáttu ferðalanga. Þriðji möguleikinn er að heimsækja eitt þeirra fjölmörgu þorpa sem finnast í grenndinni og bjóðast til að greiða heimamanni eða konu vel fyrir leiðsögn um svæðið einn dag eða svo. Þannig losnar fólk við helþreyttan fjöldatúrisma og færir peninga til íbúa svæðisins. Íbúa sem njóta nánast einskis af þeim hundruðum þúsunda sem sækja Viktoríufossa heim ár hvert.