E f vel er gáð má finna nánast hvað sem er í hinni indælu borg Barcelona. Meira að segja einhverjar heillegustu rómversku rústir sem fundist hafa á Spáni og þótt víðar væri leitað.
Kannski er það sökum þess fjölda skemmtilegra staða sem hér eru sem hafa orðið til þess að tiltölulega lítið fer fyrir borgarminjasafni Barcelona.
Musea d’História de la Ciutat stendur við Plaça del Rei torgið í yndislegu gotneska hluta borgarinnar. Lítið og fremur skuggalegt torgið er sagt vera sá staður þar sem þáverandi konungur og drottning Spánar tóku fyrst á móti Kólumbusi eftir hans fyrstu ferð til Ameríku og skip hans drekkhlaðin spennandi nýjungum og gulli með.
Hér er, eins og nafnið segir til, saga borgarinnar í máli og myndum og það sannarlega skoðunar virði fyrir söguþyrsta einstaklinga.
En allra merkilegast er að taka lyftuna niður í kjallarann. Þar fara gestir bókstaflega tvö þúsund ár aftur í tímann því þar má finna merkilega heillegar rústir rómversks þorps. Þorpið atarna er kannski allra merkilegasti hlutur í Barcelonaborg því þessar rústir eru fyrstu byggingarnar á svæðinu og því má þakka Rómverjum að hér er lífleg og stórskemmtileg borg í dag.
Rústirnar eru ekki aðeins merkilega heillegar heldur og hefur tekist að ráða í næstum allt sem hér er. Hér var víngerð og hér var þvottalaug og hér var meira að segja fiskverkun þar sem fiskur var skorinn og saltaður eftir smekk þess tíma. Þá eru hér einnig æði heillegar flísar og skreytingar.
Sannarlega fróðlegt stopp á ferð hér um og Fararheill mælir hundrað prósent með klukkustund eða svo. Príma yfir hádaginn þegar hitinn er sem mestur ;). Heimasíðan.