E inhverjar allra mikilvægustu menningarminjar á jörðinni allri finnast í hellaborginni Petra í suðurhluta Jórdaníu. Ekki okkar orð heldur heimsminjaskrár Sameinuðu þjóðanna. Við tökum hins vegar fullum hálsi undir.

Engum skal koma á óvart að þessi magnaða borg, sem hugsanlega er allt að því 2500 ára gömul er allra mesta aðdráttaraflið í sólríkri Jórdaníu. Þó töluvert af borginni heyri sögunni til sökum átaka, náttúruhamfara og elli má hér þó enn finna töluvert heillegar minjar borgar sem bókstaflega var hogginn til í klettabelti við Arabah-dalinn. Fornleifafræðingar eru enn þann dag í dag að uppgötva nýjar víddir á þessari kostulegu perlu mannkyns.

Flestar myndir frá Petra sýna aðeins það allra stórkostlegasta. En það er fjöldinn allur af manngerðum hellum og híbýlum hér um allar trissur.

Yfirgnæfandi hluti ferðafólks bókar túra til og um Petra fyrirfram gegnum ferðaþjónustuaðila, annaðhvort heimavið eða gegnum heimafólk við komu til Amman. Frá höfuðborginni Amman tekur um tvær til þrjár stundir að ná til Petru. Velflestir ferðaþjónustuaðilar bjóða því dagsferðir þar sem farið er snemma að morgni og komið tilbaka um kvöldmatarleytið í loftkældum rútum. Það gefur flestum þetta þrjár til fimm stundir í Petra sem er príma ef bara skal sjá það allra helsta og auðvitað monta sig af á samfélagsmiðlum.

Fólk sem lifir fyrir samfélagsmiðla tekur myndir á sama staðnum. En Petra er töluvert meira en það.

Ef vit er í kolli og tími nægur er hins vegar ráð að dvelja hér lengur en það. Mun lengur. Það helgast af því að svæðið með fornminjum er svo stórt að enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Hér eru ekki aðeins kostuleg mannvirki hist og her heldur og er svæðið tiltölulega fallegt og ýkja margt sem má læra og taka inn ef fólk dvelur aðeins lengur en þessir hefðbundnu túrar bjóða.

Hægt er að gista ekki langt frá Petra á ágætum hótelum og ekki er amalegt heldur að henda upp leigutjaldi örskammt frá klettaborginni. Með þeim hætti má njóta alls þess besta í dagsljósi en jafnframt taka inn herlegheitin að kvöldi til. Það er nefninlega tvennt ólíkt að vitna Petru í firnasterku sólarljósi og í dimmu og skugga að kvöld- eða næturlagi. Það var nefninlega ekkert rafmagn á sínum tíma til að lýsa fólki veginn þegar skyggja tók og myrkrið gerir Petru mun raunverulegri og enn meira heillandi en ella.

PS: Minnst 40 aðilar bjóða þér ferðir til Petru frá Amman. Auðvelt reyndist að prútta kostnað vel niður en sýna þó sanngirni í þessu fátæka landi. Láttu vera að bóka túra fyrirfram. Það margborgar sig 🙂