Skip to main content

Þ að er engan veginn algilt en á stundum má spara nokkrar upphæðir á ýmsum skoðunarferðum á Kanarí og Tenerife með því einu að versla ekki við Íslendinga.

Engum ætti að leiðast mikið á Kanarí í janúarmánuði meðan vindar kæla mannskapinn heima á Fróni fram úr hófi.

Sjálfsagt að skoða hvað er í boði af hálfu annarra ferðaskrifstofa á ferð um Kanarí eða Tenerife

Einn úr ritstjórn er nýkominn frá dvöl á Kanarí og þar bæði kátt í höllinni og á ströndinni enda fyrir löngu orðið uppselt í ferðir á þessum árstíma til spænsku eyjanna.

Eins og mörgum er gjarnt sem þar dvelja tvær vikur eða lengur geta komið tímar þegar leiði sækir að. Sjórinn of kaldur yfir vetrartímann til að dandalast á ströndinni, barirnir heilla ekki alla og alls ekki öllum stundum og þá er hreint út sagt engin ósköp annað við að vera. Jafnvel indæl vetrarsólin hefur takmarkaðan gildistíma fyrir suma.

Þá er svo sem ekki mikið annað í stöðunni en rjúka í skoðunarferðir um aðra bæi eða eyjuna alla. Allar íslensku ferðaskrifstofurnar bjóða upp á slíkar ferðir og oft ágætt úrval ferða flesta daga. En það gera líka tugir annarra ferðaskrifstofa sem ferja fólk hingað og þær ferðaskrifstofur bjóða líka skoðunarferðir hingað og þangað. Og oft á lægra verði en þær íslensku.

Það er í þessu eins og öðru að það er auðveldara að fá sérkjör og afslætti þegar um er að ræða stóra ferðaþjónustuaðila og engin íslensku ferðaskrifstofanna fellur undir það. Þess vegna fundum við ferðir um eyjuna, hálfs dags og dagsferðir, með sænskum, dönskum og breskum aðilum á nokkuð lægra verði en boðið var upp á af hálfu þeirra íslensku.

Sem dæmi má nefna að skoðunar- og verslunarferð til Las Palmas frá Playa del Inglés kostaði 29€ á mann gegnum íslensku aðilana meðan sams konar ferð hjá Bretunum fékkst á 16€. Það næstum helmings munur en samt djók miðað við sértilboð af hálfu sænskrar ferðaskrifstofu á sama tíma sem heimtaði heilar 8€ fyrir Las Palmas túrinn. Tilboð þeirra sænsku reyndar auglýst sem sérstakt afmælistilboð en eftirgrennslan leiddi í ljós að slíkt hefur einnig verið í boði áður án þess að kallast „afmælistilboð.“

Við fengum líka staðfest að aðrir einstaklingar en þeir sem ferðuðust með þessum erlendu ferðaskrifstofum gátu flotið með í skoðunarferðum þeirra. Ekkert vandamál. Þetta eru jú viðskipti þegar allt kemur til alls. Gallinn sá að leiðsögumaðurinn talar ekki íslensku og rúturnar fullar af Svíum, Bretum eða Þjóðverjum í stað Íslendinga.

Sem auðvitað fer miður niður hjá mörgum landanum sem helst vill vera með sínu fólki. Hinir sem telja engu skipta með hverjum farið er í stutta rútuferð geta sparað ágæta peninga. Eina sem þarf að gera er að rölta um nokkur stór hótel en skoðunarferðabæklingar margra ferðaskrifstofa finnast gjarnan í anddyri þeirra. Bera svo saman verð og voilà!

Sama er uppi á teningnum á vinsælli strandstöðum Tenerife.