Þ að kemur reglulega fyrir hjá ritstjórnarmeðlimum Fararheill að misreikna herfilega vegalengdir á stöðum í heiminum. Væntanlega fleiri sem lenda í slíku. En á þessu vandamáli er sáraeinföld lausn.

Frá Yumbo Center á Ensku ströndinni að ströndinni sjálfri er nákvæmlega 1.01 kílómetri í beinni línu.
Við vorum minnt á þetta vandamál í vikunni þegar óskað var aðstoðar okkar varðandi hótel á Maspalomas á Kanarí. Tvenn hjón vildu gjarnan bóka hótel eitt í Sonneland-hverfinu en fyrir kunnuga þá er það hverfi spottakorn frá lífinu öllu á Playa del Inglés.
Hjónin voru á báðum áttum að bóka því þau gátu ekki fengið nákvæmar upplýsingar um fjarlægð frá hótelinu að bæði ströndinni og ekki síður hinni frægu Yumbo Center verslunar- og skemmtimiðstöð. Var þetta í göngufæri eða þurfti að taka leigubíl á milli? Óþarfi að taka fram að um eldri hjón að ræða og því áríðandi að vita svona lagað svona fyrir þá sem ekki treysta sér að ganga langar leiðir.
Að vita nákvæmar vegalengdir er alltaf betra en að giska og það er sáraeinfalt að fá þær upplýsingar á hreint hvar sem þú ert í veröldinni. Trixið felst í því að heimsækja Google Maps. Þar leitar fólk að þeim stað er það vill vita upplýsingar um sem í þessu tilfelli er Maspalomas á Kanarí. Hægt er að „klikka“ alls staðar á kortum Google, hvort sem eitthvað er á staðnum eður ei. Eftir að hafa „merkt“ upphaflega staðinn (hótel eða gististað) með þeim hætti færir fólk bendilinn yfir merkið og hægrismellir. Þá kemur upp gluggi með frekari upplýsingum eins og sjá má hér að neðan.
Þar í boði ýmislegt en við vinstrismellum á „mæla vegalengd.“ Svo færum við bendilinn að til dæmis Yumbo Center og voilà! Upp kemur nákvæm lengdarmæling á milli þessara tveggja staða hvort sem er í beinni loftlínu, gangandi eða akandi.
Það þarf heldur ekki að vera bein lína. Hægt er að fjölga línum eftir behag og þannig til dæmis reikna út hvað góður göngutúr niður á strönd og svo aftur upp eftir að hótelinu er langur.
Um að gera að nýta sér þetta tól Google hvar sem þú ert í veröldinni.