Þ að missir sennilega enginn þvag niður fótlegginn af því að hugsa til borgarinnar Frankfurt í Þýskalandi. Sú almennt meira tengd viðskiptum og fölum jakkafataplebbum en gleði og glamri. En hún á samt sína ágætu spretti.

Lesa má um borgina í þaula hér en í stuttu máli er þetta fjarri því leiðinlegur áfangastaður svona í tvo til þrjá sólarhringa. Þá leiðist þér bara ef þú ætlar þér að leiðast.

Að því sögðu höfum við klambrað saman fimm stöðum í borginni sem gera dvöl þar töluvert ljúfari en ella:

Miðbæjartorgið

Römerberg er staður staðanna í miðborg Frankfurt. Þetta ágæta litla torg er eins þýskt og bjór og pylsur og góðu heilli hefur velflestum byggingum hér verið viðhaldið lengur en í fimm mínútur. Sem merkir að á meðan þú sötrar ljúfan heimamjöðinn geturðu virt fyrir þér merkilegar byggingar sem sumar hverjar voru reistar á svipuðum tíma og Ingólfur Arnarson „fann” Ísland.

Víst er hér múgur og margmenni alla sólardaga ársins og víst kostar bjórinn og maturinn eilítið meira en á velflestum öðrum stöðum borgarinnar en þá ber að hafa í huga að þú ert að vitna dálítið sérstakt allt í kring algjörlega frítt.

PS: Römerberg er oftast kallað Römer af heimafólki og stundum líka Rathausplatz enda stendur ráðhús borgarinnar við torgið. Torgið þótti það merkilegt á sínum tíma að frá fimmtándu öld og fram að þeirri nítjándu var þetta opinber staður fyrir vígslu konunga og drottninga landsins.

Flóamarkaðurinn

Jú, víst eru góðir flóamarkaðir í öllum borgum og bæjum bæði austan og norðan Alpafjalla en það eru ekki margir sem komast á topp tuttugu hjá Tripadvisor. Ekki sökum þess að flóamarkaðurinn hér sé endilega eitthvað betri en aðrir heldur meira út af stemmningunni. Hér er fólk almennt svo önnum kafið fimm daga vikunnar í viðskiptaborg að margir henda alfarið af sér beislinu um helgar og það finnst glögglega á flóamarkaðnum.

Raunar eru tveir flóamarkaðir í borginni en reknir af sama aðila og svipað stórir. Einn við Schaimankai og annar við Lindseystraβe. Þeir aldrei opnir á sama tíma heldur skiptast á en einungis opnir á laugardögum frá 9 á morgnana til 14 á daginn.

Kjörið að vappa hér um ef drykkja kvöldið áður hefur ekki gert þig algjörlega farlama. Og hver veit nema þú finnir einhver ómetanleg djásn fyrir klink.

PS: spurðu starfsfólk á gististað hvar flóamarkaðurinn er hverju sinni. Þá sleppurðu við fýluferð.

Aðalturninn

Aðalturninn er léleg þýðing ritstjórnar á heitinu Main Tower. Sem væri sallafín þýðing ef um ensku væri að ræða því main tower þýðir bókstaflega aðalturninn á því tungumálinu.

Hér í Frankfurt vandast þó málið aðeins og það tengist ánni Main sem rennur gegnum borgina. Main á þýsku þýðir nefninlega ekki „aðal.”

Að því sögðu þá veit hvert mannsbarn í borginni hvar Main Tower er að finna og jafnvel þó svo sé ekki þá er sáraeinfalt að finna turninn þann. Þú lítur bara til himins 🙂 Main Tower er hæsti turn Frankfurt og þar nálægt toppnum er sallafínn útsýnisstaður sem opinn er almenningi. Þar líka veitingastaður og bar svona fyrir þá sem þurfa smá hughreystingu áður en gengið er út á útsýnispallinn.

PS: veitingastaðurinn er tiltölulega móðins og þétt setinn flest kvöld vikunnar. Bókaði með fyrirvara til að verða ekki fyrir vonbrigðum.

Eberbach klaustrið

Hvað gera bændur, eða munkar í þessu tilfelli, þegar kirkjunnar æðstu prestar í Róm ákveða að leggja staðinn niður með manni og mús sísona?

Svarið við því fæst í Eberbach klaustrinu í hálftíma fjarlægð til vesturs frá Frankfurt. Ekkert stórkostlegt að sjá svona utanfrá en þegar inn er komið er auðvelt að átta sig á hversu magnað þetta fyrrum klaustur var og er ennþá.

Þetta var bókstaflega hefðbundið kaþólskt klaustur þegar Vatíkanið ákvað í byrjun átjándu aldar að setja klaustrið af. Það þýddi að íbúarnir þurftu að finna sér annað til dundurs á orskotsstundu og engum skal koma á óvart að munkarnir snéru sér umsvifalaust að því að framleiða mjöð djöfulsins. Vín með öðrum orðum.

Húsakynnin æði merkileg þegar inn er komið og gestir fá oftar en ekki að smakka Eberbach mjöðinn sem enn er bruggaður hér og þykir ekki dapur.

Senckenbergsafnið

Kannski að bera í bakkafullan læk að mæla með náttúrulífssafni fyrir ferðafólk. Þau söfn finnast jú víðast hvar og nútímamaðurinn hefur almennt talað tiltölulega lítinn áhuga á sögu manns og dýra frá aldaöðli.

Engu að síður er Schenkenberg-safnið heimsóknar virði. Ekki aðeins er safnið í labbifjarlægð frá miðborginni heldur og er þetta merkilegra safn en margur heldur. Í fyrsta lagi er þetta annað stærsta náttúrlífssafn Þýskalands og þar með eitt af tíu stærstu slíku söfnum í Evrópu allri. Í öðru lagi er það enn staðsett á þeim stað sem það var opnað árið 1906 og byggingin sjálf ekkert slor. Í þriðja lagi hafa rekendur aldeilis nýtt sér tækni heimsins til að koma sögu manna og dýra til skila eins og kostur er. Hér er allt auðvelt og engin heimsókn hingað skilur ekkert eftir sig.