F áir verr launaðir þarna úti en bílstjórar Lyft- eða Uber. En bílstjórarnir óvitlausir og hafa nú fundið leið til að láta ferðalanga borga algert hámarksverð ef um ferðir frá flugvöllum er að ræða.

Ekki alltaf sem þú færð betri díl hjá Uber eða Lyft en almennum leigubílum frá flugvöllum.

Fyrir þá sem ekki þekkja þá gera bæði Lyft og Uber út á verðlag sem tekur breytingum eftir eftirspurn. Með öðrum orðum; ef eftirspurn eftir leigubílum er mikil eða fáir bílar til taks á tilteknu svæði þá hækkar verðið duglega á augabragði.

Þetta ekkert sem bílstjórarnir ákveða heldur er það gert í höfuðstöðvum Uber og Lyft. Formúlan er að þú færð skutlið billega ef enginn er annatíminn og margir bílstjórar bíða. Ef hins vegar margir eru um hituna og fáir bílar á vettvangi þá snarhækkar verðið og það alveg þrefalt til fjórfalt frá því sem eðlilegt telst.

En hvernig vita tölvur leigubílafyrirtækjanna að aðsókn er mikil eða fáir starfsmenn eru á vappi á tilteknu svæði? Jú, einfaldlega með eftirliti. Allir bílstjórar beggja fyrirtækja verða að vera sítengdir öllum stundum til að mynd fáist af framboði og eftirspurn. Það gera bílstjórarnir gegnum sérstakt app á símum sínum. Uber og Lyft vita því öllum stundum hversu margir bílstjórnar eru til þjónustu reiðubúnir á tilteknu svæði alls staðar í heiminum og haga verði sínu eftir því.

Alles gut með þetta. Framboð, eftirspurn og kapítalismi.

Nema hvað að bílstjórar hafa nú fundið súperfína leið til að hækka launin sín og það þrátt fyrir að lítið sé að gera. Það gera þeir sérstaklega á vinsælum flugvöllum vestanhafs og víðar.

Trixið er að vita hvenær margar rellur eru að lenda á sama tíma á vinsælum flugvelli og klukkustund eða hálfri áður en það gerist að slökkva á appinu. Tölvubúnaður Uber/Lyft tekur þá samstundis eftir að fáir eða engir bílar eru lausir á viðkomandi svæði og hækkar gjaldið umsvifalaust þegar kerfið merkir að marga vantar far. Svo tíu mínútum eða svo áður en von er á fjölda farþega út úr flugstöðinni kveikja svo allir bílstjórarnir á öppum sínum á nýjan leik og detta þannig þráðbeint inn í töluvert hærri fargjöld en ella hefði verið raunin.

Sem aftur merkir að ef þú hendir í Uber/Lyft frá vinsælum flugvelli á vinsælum tíma eru sterkar líkur á að þú sért að greiða hærra verð en þú myndir gera með hefðbundnum leigubíl með mæli. Töluvert hærra.

Fyrir okkur neytendur er ráð að spyrja um gróft gjaldið þá leiðina sem við ætlum áður en við tökum næsta bíl. Stundum eru hefðbundir leigubílstjórar að bjóða best og stundum Uber eða Lyft. Ekki verra að taka upp þær tölur sem bílstjórarnir gefa upp. Ef þær standast ekki á endanum gætirðu vel átt kröfu á Uber eða Lyft vegna vanefnda.