Þ að má eiginlega miklum tíðindum sæta nú þegar hver borg, bær og krummaskuð á yfirborði jarðar keppist við að rifja upp sögu sína í því skyni að trekkja að ferðamann og annan, að það sama á alls ekki við um borgir Þýskalands. Öðru nær, þar hrista menn hausinn sé spurt um merkilega viðburði.

Þessum stað mælum við með í München.

Þessum stað mælum við með í München.

Það á til dæmis við um þjónana á hinu aldargamla veitingahúsi Hofbraükeller við Wiener Straβe í München sem flýta sér á braut þegar forvitnast er um sögufræga atburði sem hér áttu sér stað. Það var nefninlega inni á þessum stað, sem ekkert hefur breyst síðan, sem Adolf nokkur Hitler hélt sína allra fyrstu ræðu fyrir framan hóp fólks í október 1919.

Ekki svo að skilja að sú ræða hafi valdið miklum straumhvörfum en nógu sannfærandi var karlinn og fullur eldmóð að eftir var tekið og næstu misserin og árin fjölgaði óðum í stuðningshóp Hitlers með afleiðingum sem varla er þörf að fara út í hér.

En í München, eins og í Berlín og víðar, er enn töluvert tabú að minnast á karlinn og þó hér hafi Hitler lagt grunninn að því sem síðar kom finnast hvergi merki þess neins staðar. Er þó Adolf Hitler ábyrgur fyrir einhverjum blóðugasta kafla í vestrænni sögu. En í München er slæmri sögu að mestu sópað undir teppið.

Það má samt Hofbraükeller eiga að þar er fyrirtaks andrúmsloft, fyrirtaks matur og mjöður og það á fyrirtaks verði. Stórt útisvæði með tilheyrandi þýskum bjórbekkjum er hér kjaftfullt þegar fer að hlýna í lofti og það sem kannski er mest um vert að staðurinn er víst lítið á ratsjám erlendra ferðamanna. Hér er sem sagt hægt að njóta í félagsskap heimamanna og bjórboðum fjölgaði ört þegar upp úr kafinu kom að Íslendingar voru á svæðinu.

Frábær staður burtséð frá sögunni. Hér er líka dansstaður í kjallaranum og þangað sækja skemmtanaþyrstir á öllum aldri og hér geta fullorðnir notið matar öll virk kvöld því barnapössun er í boði kjósi fólk örlitla hvíld.

Hofbraükeller  finnst við Innere Wiener Straβe.