Þ ví meira sem fólk skoðar heiminn því ómerkilegri verða mannanna verk í samanburði við náttúruna og enn þann dag í dag er alls staðar hægt að rekast á stórmerkilega hluti sem koma jafnvel sigldasta fólki á óvart.
Til dæmis þá staðreynd að hægt er að senda börnin út að leika í flæðarmálinu með gaddaskötum og á meðan liggja sjálf eins og skötur á ströndinni með Piña Colada og engar áhyggjur í heiminum.
Þú ert sennilega ekki á lífi ef þér finnst það ekki merkilegur hlutur því gaddaskötur eru alla jafna tiltölulega hættuleg kvikindi. Það var til dæmis ein slík sem olli dauða náttúruunnandans Steve Irwin fyrir nokkrum árum síðan.
Hvað veldur því að á einum einasta stað í veröldinni eru þær allt í einu svo gæfar að hægt er að strjúka þeim og jafnvel taka upp og faðma án þess að hafa nokkrar áhyggjur er vísindamönnum hulin ráðgáta.
Þetta er engu að síður staðreynd og eitt fyrirtæki sérstaklega býður upp á slíkt við Mercers Creek flóa á eynni Antigua í Karíbahafi. Þar gefst tækifæri til að synda með skötunum og slys næsta fátíð þrátt fyrir að sköturnar geti bæði bitið illa og skarti einnig allvígalegum göddum aftarlega á bakinu.
Sömuleiðis er þetta svæði, eins og alls staðar í Karíbahafinu, fyrsta flokks til köfunar eða til að snorkla en mörgum finnst að auki frábært að hér tala allir ensku enda eyjan ensk nýlenda á árum áður þó heiðurinn af nafngiftinni eigi hinn ítalski Kólombus. Antigua er spænska og þýðir hin forna eða eldgamla.
Leiki vafi á Antigua sem dúllerísstað er auðvelt að finna fólk sem er því ósammála. Hér eiga lúxusvillur meðal annarra Silvio Berlusconi, Richard Branson, Eric Clapton og Giorgio Armani svo fáir séu nefndir.
Ekki er í boði að fljúga hingað frá Íslandi en allnokkur flugfélög og ferðaskrifstofur í Evrópu bjóða slíkar ferðir sem pakka eða flugið eitt og sér.
View Gaddaskötuland á Antigua in a larger map