Mörgum kann að finnast Kanaríeyjar, Algarve og Costa del Sol aldeilis toppurinn á tilverunni þegar kemur að ódýrum sumarfríum. Það kostar jú „ekki neitt“ að lifa á þessum stöðum. En verðlagið er samt HELMINGI dýrara en það er á sólbaðsstöðum í austurhluta Evrópu.

Já takk. Algarve er langódýrasti áfangastaður ferðamanna í Evrópu. En þó aðeins ef þú sleppir alveg samanburði við sólarstaði austurhluta Evrópu 🙂
Það er jú ekki eins og við Íslendingar höfum mikið val. Ef við þráum sól þá er það Alicante, Kanaríeyjar eða Mallorca sem við getum valið um svona heilt yfir Evrópumegin.
Ekki nokkur skapaður hlutur að Róm, Algarve, Kanaríeyjum eða Algarve en fyrir þau okkar sem ekki vaða í seðlum getur skipt sköpum fyrir velheppnað sumarfrí erlendis að við eigum vel fyrir hlutunum svo sumarfríið verði raunveruleg afslöppun og ekki stress og ves yfir að reikningurinn komi fyrr en síðar í hausinn á þér.
Við þær aðstæður er ekki hægt að reiða sig á innlendar ferðaskrifstofur sökum þess að ENGIN þeirra býður reglulega túra til þeirra staða sem raunverulega eru léttastir á pyngjunni: í Austur-Evrópu.
Í ljós kemur samkvæmt nýjustu úttekt bresku póstþjónustunnar, sem merkilegt nokk heldur úti vinsælu kostnaðarbloggi, að allt að því helmingi ódýrara er að lifa og njóta á vinsælum sólbaðsstöðum í austurhluta Evrópu en á ofangreindum stöðum. Matur, drykkir og afþreying á Sunny Beach í Búlgaríu eða Marmaris í Tyrklandi er raunverulega HELMINGI ódýrari en á Algarve eða Costa del Sol. Verður þó seint sagt að okrað sé á ferðafólki á Spáni og í Portúgal.
En auðvitað er engin íslensk ferðaskrifstofa að hugsa um fólkið í landinu. Ekki ein ferð er í boði héðan þetta sumarið til þeirra staða þar sem íslenska krónan dugar lengst og best. Ekki síst með tilliti til breska pundsins sem endanlega hefur fallið af stalli sem merkilegur miðill og mun að líkindum aldrei ná sér aftur.
Þetta þýðir að við verðum að redda okkur sjálf ef funheitar strendur Búlgaríu, Króatíu, Albaníu eða Tyrklands og Grikklands heilla. Það kann að þýða leiðinda stopp á einhverjum þreyttum flugvelli en ef dvalið er lengur en viku og fólk er með heila fjölskyldu og seðlar af skornum skammti er sannarlega ástæða fyrir að láta sig hafa tímabundin leiðindi á einhverjum flugvelli. Það ætíð betra en klóra sér í kolli og missa svefn þegar feitur kreditkortareikningur dettur inn um lúguna.







