H látur og skemmtan í góðra vina hópi lengir lífið. Á því getur enginn vafi leikið. Nema ef vera skyldi hlátur og skemmtan í góðra vina hópi um borð í skemmtiferðaskipi.

Því stærra skemmtiferðaskip, því meiri loftmengun fyrir farþega.
Hmmm. Eitthvað hefur ritstjórn Fararheill reykt of sterkar jónur þennan daginn kann einhver að hugsa. Það gildir jú einu hvar fólk kemur saman og nýtur lífsins til að bæta líf og í það minnsta andlega heilsu hvers og eins ekki satt?
Neibbs. Ekki ef hópurinn er að dúlla sér í skemmtisiglingu.
Það helgast af því að nýlegar rannsóknir leiða í ljós að loftmengun á skemmtiferðaskipum er ægilegri en í menguðustu borgum heims og það daglega alla daga. Það er að segja ef fólk er á annað borð að þvælast utandyra á þilfarinu. Sem er jú dálítið hugsunin með skemmtisiglingum.
Það getur hver staðfest sem hoppað hefur um borð í skemmtiferðaskip undanfarin ár að þar er hugmyndin yfirleitt ekki að hanga í koju frameftir degi og taka barinn og spilavítið þegar degi tekur að halla. Hugmyndin er frekar að taka daginn snemma, grípa handklæði og hlaupa út á þilfar og sóla sig í tætlur með góðri margarítu umkringd skemmtilegu fólki. Svona allavega meðan sólin skín.
Í ljós kemur samkvæmt rannsóknum þýskra aðila að á meðalstórum skemmtiferðaskipum getur loftmengun á þilfari undan vindi numið allt að 144 þúsund míkrógrömmum á hvern kúbikmetra vegna eldsneytisbruna sem jafnan er mikill á öllum skemmtiferðaskipum. Við reykháfa skemmtiferðaskips af meðalstærð hoppaði svifryksmengunin upp í 226 þúsund míkrógrömm á hvern kúbikmetra.
Míkrógrömm og kúbikmetrar er ekki allra að skilja. En það setur hlutina í kýrskýrt samhengi fyrir jafnvel fávísasta fólk að dagleg heilsuverndarmörk fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm per kúbikmetra.
Á mannamáli: sá eða sú sem nýtur lífsins á þilfari sæmilegs skemmtiferðaskips gæti eins lagt sig við menguðustu gatnamót í Bejing í Kína og samt andað að sér margfalt minna magni svifryks en á dekkinu á skemmtiferðaskipi.
Hvers vegna erum við að væla um þetta núna?
Jú, sökum þess að næstum daglega berast nýjar fréttir af áhrifum loftmengunar á lifandi fólk og dýr. Nú síðast var staðfest með þokkalega óyggjandi hætti að loftmengun margfaldar líkurnar á sykursýki hjá almenningi. Það í ofanálag við rannsóknir sem staðfesta að þeir sem búa við miklar umferðaræðar lifa skemur en aðrir.
Loftmengun er eitur fyrir okkur öll og kannski hvergi meira en í dúlleríi á skemmtiferðaskipi. Og öll viljum við lifa aðeins lengur en ella…