Skip to main content

V iðurkenndu það bara. Allavega einu sinni á lífsleiðinni værir þú alveg til í að kasta af þér öllum heimsins fjötrum og djamma, djúsa og dansa fram í rauðan dauðann…. í það minnsta fram á rauðan morguninn.

Tónlistarhátíðin í Glastonbury er fjör út í eitt.

Tónlistarhátíðin í Glastonbury er fjör út í eitt.

Lífið, að mati ritstjórnar Fararheill, snýst ekki bara um að vera heilbrigður á sál og líkama heldur og líka að njóta. Leyfa sér að vera frjáls undan áhyggjum án þess að fá sektarkennd og bömmer. Vart eru til betri staðir til þess en þar sem enginn, eða allavega fáir, þekkja þig og hvar betra en lengst úti í heimi?

Hátíðir ýmis konar eru haldnar nánast í hverju einasta krummaskuði heims og því af nógu af taka í þeim efnum. En hverjar þeirra er hreint og beint ómissandi? Við settum haus í bleyti og komumst að niðurstöðu.

Þær eru í engri sérstakri röð þessar:

LAS FALLAS, VALENCIA, SPÁNN

Hátíð í bæ og það í hinni skemmtilegu borg Valencía á austurströnd Spánar. Las Fallas þekkja ótrúlega fáir Íslendingar miðað við að hún er stórkostleg og haldin tiltölulega skammt frá Benídorm, Alicante og Torrevieja sem landinn hefur sótt um árabil.

Las Fallas snýst í grunninn um að heiðra dýrlinga borgarinnar en þótt trúin sé rækilega tengd Fallas er hátíðin þó fræg og vinsæl fyrir allt annað. Hér keppa fjölmargar götur sín á milli ár hvert um bæði hverjir hanna og byggja flottasta líkneskið úr pappa, kvoðu og tré. Keppnin er ekki aðeins hörð milli fullorðna fólksins heldur og keppa ungmennin einnig um glæsilegasta smálíkneskið. Umrædd líkneski eru sannarlega stórkostleg enda er keppnin svo hörð að margir eru fyrir löngu farnir að svindla og ráða meistarasmiði og listamenn til að útbúa fyrir sig líkneskin. Þykir það einhver mesti heiður ár hvert fyrir þá götu sem sigrar þá keppni og það fer ekki framhjá nokkrum manni í borginni hvaða líkneski það gerir. Ástæðan sú að öll líkneskin sem ekki sigra eru brennd til grunna nóttina fyrir lokadag hátíðarinnar meðan sigurvegarinn fær að standa. Algjörlega ólýsanlegt er að labba gatna á milli í miðborg Valencíu og sjá himinhá líkneski í björtu báli í hverri götu. Og við erum að tala um líkneski sem unnið hefur verið að í heilt ár og eru mörg hver þvílík listaverk að engu tali tekur.

En ekki nóg með það. Göturnar keppa líka í skreytingum; hvaða gata er fallegast skreytt og ekki síður er keppnin hörð hér. Ljósasýningar, upplýstir kantsteinar og skreytingarnar það íburðarmiklar að jólaskreytingar eru bara hlægilegar. Hér er líka gripið til örþrifaráða og menn ráðnir til að fara með ljóð og leiki til að heilla gesti, gangandi og dómnefndina. Ekki síður bregða íbúar hverrar götu upp veislu og einnig þar reyna menn að útbúa besta mögulega paellu eins og héraðsrétturinn í Valencíu heitir. Hann þekkja flestir Íslendingar en paella er hvergi betri en á götum Valencíu yfir Fallas.

Hefðin að útbúa líkneski, sem geta verið af hverju sem er en eru oftast líkneski þekkts fólks í borginni, landinu eða heiminum, stafar af samkeppni trésmiða á miðöldum. Smiðirnir söfnuðu reglulega saman öllum afgöngum sínum og rusli og brenndu til heiðurs verndardýrlingnum heilögum Jósep. Innan tíðar komst á vinaleg samkeppni um stærstu brennuna sem þróast hefur með ofangreindum hætti.

Er hér aðeins tæpt á því helsta sem fram fer á Las Fallas. Að auki fer hér fram ein stærsta flugeldasýning á Spáni þennan tíma, margar trúarlegar athafnir eru einnig í gangi, skrúðgöngur víða, sprengingar og læti alla dagana. Þetta er gríðarlegt sjónarspil sem enginn verður svikinn af. Opinber vefsíða hátíðarinnar hér.

Las Fallas fer fram í 15. – 19. mars ár hvert og þá daga er óráð að ætla sér mikinn svefn sé gist í miðbænum eða grenndinni. Bóka skal gistingu með árs fyrirvara hið minnsta sé hugmyndin að vera miðsvæðis en fjölmargir kjósa reyndar að gista í töluverðri fjarlægð vilji þeir dúr á auga.

Ferðaskrifstofurnar bjóða sumar flug til Alicante sem er í tveggja stunda akstursfjarlægð frá Valensíu.

ST. PATRICK´S DAY, DUBLIN, ÍRLAND

Það virðist ekki fara fyrir brjóst hinna glöðu Íra að hinn mjög svo dáði heilagur Patrekur hafi alls ekki verið írskur heldur velskur. Enda kannski snýst Dagur heilags Patreks í dag minna um að sýna honum lotningu en frekar um að skemmta sér og öðrum með öllum þeim hætti sem löglegur er. Sem í ljósi sögunnar er forvitnilegt en allt fram til ársins 1970 voru knæpur og öldurhús alls staðar á Írlandi lokuð til að heiðra Patrek. Nú er öldin önnur en auðvitað eru samkomur í kirkjum og skrúðgöngur um stræti landsins tileinkaðar karlinum þennan tíma.

Þessum degi er fagnað víða um veröld enda Írar duglegir að breiða úr sér á árum áður. Sérstaklega þykir hátíðin fjörug í borgunum Chicago og Boston í Bandaríkjunum og ekki má heldur gleyma að það voru Írar í New York sem fyrstir tóku upp á því að halda veislu af þessu tilefni en ekki heimamenn á eyjunni grænu. Ritstjórn Fararheill vill þó meina að stemmarinn sé hvergi eins og í höfuðborg Írlands enda hefðir og ekki síst lög og reglur aðrar.

Fyrir það allra fyrsta eru Írar höfðingjar heim að sækja og ávallt stutt í grín og glens hjá meirihluta þeirra. Það er ávallt fólkið sem gerir hluti skemmtilega og þó reyndar margir Írarnir drekki eins og enginn sé morgundagurinn þá halda þeir víni með ólíkindum og ekki sjást nein ólæti og vesen í miðborg Dyflinnar eins og nafnið hefur verið íslenskað.

Borgin er skreytt á alla mögulega vegu og það gera bæði bæjaryfirvöld og einnig einkafyrirtæki. Allt verður grænt sem á annað borð er hægt að breyta tímabundið í grænt og meira að segja stöku umferðaljós verða alveg græn þó með mismunandi grænum lit. Þá er smárinn, einkennistákn Íra, í hávegum hafður en þá plöntu á Patrekur að hafa valið sér til að minna á heilaga þrenningu.

Víða í Dyflinni fara fram skrúðgöngur þann tíma sem hátíðin stendur. Leiklistar- og tónlistarfólk leikur listir sínar inni sem úti og ýmsir smærri viðburðir fara fram víða þó flestir séu í miðborginni. Opinber heimasíða hátíðarinnar hér.

St.Patrick´s hátíðin stendur yfir í fjóra daga frá 16. til 19. mars en ekki á að þurfa að bóka gistingu með miklum fyrirvara. Jafnan er nóg af lausum hótelherbergjum og íbúðum í boði vel fram á árið yfir hátíðardagana.

Icelandair flýgur lóðbeint til Dublin þar sem mesta partíið fer fram en engu minni stemmning er í minni bæjum landsins.

KONINGINNENDAG, AMSTERDAM, HOLLAND

Ólíkt mörgum öðrum hátíðum sem fara fram yfir nokkra daga er aðeins einn einasti dagur sem máli skiptir í Hollandi. Drottningardagurinn, Koninginnendag, er dúndrandi partí alls staðar í landinu en sýnu besta veislan fer fram í Amsterdam.

Tilefnið er afmæli drottningar landsins og fer hátíðin fram 30. apríl ár hvert. Sem er þó alls ekki afmæli drottningarinnar, Beatrix, heldur fæðingardagur Júlíönu móður núverandi drottningar. Sú fyrrnefnda á afmæli í janúar sem er helst til kaldur til veisluhalda á götum úti og því hefur dagsetningin haldist.

Allir sem ímugust hafa á appelsínugulum lit ættu að halda sig fjarri því hvergi hvílast augun þennan dag án þess að rekast á þann lit. Allir sem vettlingi geta valdið klæðast þessum þjóðarlit Hollands og skreyta inni sem úti allt sem skreyta má.

Vart er þverfótað fyrir fólki á götum miðborgar Amsterdam þennan dag. Barir og kaffihús pakkaðir eins og sardínur í dós og vart sést heldur í síki borgarinnar því hver einasti einstaklingur sem á bátskrifli býður í partí og heldur á rúntinn. Það gera margir með stóra hátalara um borð og tónlist spiluð eins og hægt er og oft í samkeppni við aðra.

Hollendingar eru með skemmtilegra fólki almennt og þegar þeir taka sig til eins og hér eru ekki margir staðir á jarðkringlunni þar sem jafn auðvelt er að svífa með gleðskapnum. Ferðamenn eru mjög velkomnir, þó vissulega séu vasaþjófar vandamál í mannþrönginni, og þeim oft boðið fyrirvaralaust með í veislu á báti, í heimahúsi eða á næsta götuhorni.

Jafnvel þeir sem lítt hafa gaman af manni og öðrum geta unað sér vel hér Drottningardaginn því einnig er þetta opinber markaðsdagur og sölubásar og sölumenn um víða borg að pranga inn á mann öllu mögulegu undir sólinni.

Óopinberlega hefst partíið kvöldið fyrir Drottningardaginn og er hætt við að ýmsir sem gista í miðborg Amsterdam fái lítinn svefn þá nótt. Og ekki dugar að fara út fyrir miðborgina heldur því götupartí eru mjög víða og ekki einskorðuð við miðbæinn. Allir helstu barir og klúbbar skipuleggja metnaðarfyllstu dagskrá sem hægt er og má finna stór nöfn í skemmtanabransanum troða upp í þeim mörgum þennan tíma.

Koninginnendag fer fram árlega þann 30. apríl og skiptir ekki höfuðmáli hvar í Hollandi þú stígur niður fæti þann dag. Alls staðar eru veislur par excellance og stuð í kaupbæti.

Icelandair og Transavia fljúga reglulega til Amsterdam.

GLASTONBURY, PILTON, ENGLAND

Þó Íslendingar séu margir hrifnari af Hróarskelduhátíðinni sem oftar en ekki er svo fjörug og skemmtileg að hún lifir endalaust í minningu þeirra sem prófað hafa þá er sú hátíð öllu takmarkaðri en Glastonbury hátíðin í Englandi. Bæði eru fjölbreyttari atriði í boði í Glastonbury, fleiri og stærri nöfn stíga þar jafnan á stokk og gestafjöldi hartnær helmingi meiri en í Hróarskeldu.

Sé hugmyndin á annað borð að skemmta sér út í eitt undir beru lofti, njóta vina, viðburða og góðrar tónlistar er vandfundinn betri staður en stóru tónleikahátíðirnar. Hróarskelda hefur sannarlega sinn sjarma og stíl en Glastonbury líka. Ekki síst eru það risanöfn í heimi tónlistar sem koma fram á síðarnefnda staðnum meðan það er happa glappa hjá Dönunum. Svo dæmi sé tekið voru U2, Coldplay og Beyoncé aðalatriðin á Glastonbury 2011 meðan Hróarskelda bauð upp á Iron Maiden, Kings of Leon og Arctic Monkeys. Þarna er himinn og haf á milli þó vitaskuld megi alltaf megi deila um slíkt.

En Glastonbury er miklu meira en tónlistin. Fjölmargar aðrar uppákomur eru hér í boði. Leiksýningar, markaður, gjörningar af ýmsu tagi og hér leifir enn af hippastemmningu þeirri er var upphaflega ástæða hátíðarinnar sem þá hét Pilton hátíðin. Á Glastonbury nútímans eru afmörkuð svæði til íhugunar og leikja með hippaformerkjum. Hér er sirkus og kabarettsýningar og margir grínistar troða hér upp alla dagana.

Þá er Glastonbury stærri á alla lund sem er í samanburði við Hróarskeldu er bæði plús og mínus. Verra þar sem margir komast ekki ýkja nálægt hljómsveitum sem þar spila, erfiðara að komast til og frá svæðinu, smáglæpir vandamál og ekki er ókeypis að taka þátt. Miðaverð fyrir alla þrjá dagana sem hátíðin stendur kostaði tæplega 40 þúsund krónur 2011.

Á móti er fjölbreyttara úrval viðburða, skipulagning er almennt betri og öryggi fólks meira. Ekki má gleyma að Glastonbury hátíðin er strangt til tekið góðgerðarhátíð og hluti tekna fer til hjálparsamtaka. Þá er lögð rík áhersla á umhverfisvernd eins og hægt er. Síðast en kannski ekki síst hefur veðurfar síðustu 20 árin verið mun hagstæðara á Glastonbury en Hróarskeldu. Opinber heimasíða hér.

Glastonbury fer  fram í þrjá eða fjóra daga og oftast árlega þó undantekningar séu á því. Miða er hægt að panta á netinu en hafa verður hraðann á þegar þeir fara í sölu því álagið er vægast sagt stórkostlegt. Gisting á svæðinu sjálfu er aðeins í tjöldum en þau er bæði hægt að koma með og leigja. Svæði fyrir húsbíla eða vagna er einnig í boði en töluverður spotti er í næstu gistihús eða hótel og í raun ekki fýsilegur kostur.

Icelandair, Wizz Air og easyJet fljúga til London.

OKTOBERFEST, MUNCHEN, ÞÝSKALAND

Flestir eru um það sammála að meðan Þjóðverjar geta verið leiðinlegustu plebbar alheimsins á sínum eigin ferðalögum er allt annað uppi á teningnum séu þeir sjálfir sóttir heim. Þá er ekki yndislegra fólk að finna.

Líkast til er það misjafnt eins og annars staðar en það er hins vegar staðreynd að heimamenn í Munchen sýna erlendum gestum á Oktoberfest ekkert nema liðlegheit og kurteisi og það jafnvel þó hátíðin sú hafi tekið miklum breytingum til hins verra að mati íbúa. Hún er nefninlega farin að snúast töluvert meira um að fá erlenda ferðamenn til að eyða peningum sínum heldur en halda heimamönnum jóðlandi góðum og fullum.

Eins og raunin er með Dag heilags Patreks er Oktoberfest víða að finna og ekki aðeins í þýskumælandi löndum. Húrrandi vinsældir hátíðarinnar í Munchen er meginástæða þess að finna má samnefndar hátíðir á Íslandi, Tælandi og Líbanon svo dæmi séu tekin. En þessi hátíð er sú eina sanna ef svo má að orði komast þó margir nágrannabæir Munchen eigi svipaðar hátíðir og það jafnvel eldri.

Munchen er í allra fyrsta lagi stórgóð borg að heimsækja almennt og ótrúlega róleg miðað við stærð hennar. Ekki er stressi og látum hér fyrir að fara í sama mæli og víðast hvar í stærri borgum.

Sé slíkt til staðar hverfur það sem dögg fyrir sólu þegar hátíðin hefst ár hvert og það gerir hún, merkilegt nokk, í september en ekki október. Stundvíslega í september ár hvert er blásið í lúðra og hátíðin hefst og stendur í sextán eða sautján daga eða fram til fyrsta sunnudags eða mánudags í október.

Þetta er óformlega stærsta útihátíð heims því hana sækja milli fimm og sjö milljónir manna ár hvert. Meirihlutinn, 75 prósent, eru þó heimamenn eða fólk annars staðar frá í Bavaríufylki.

Þó hér sé nóg í boði af viðburðum, sýningum, leiktækjum og öðru því sem flokkast undir afþreyingu er meginmálið matur og drykkur eða þýskur matur og þýskur bjór til að vera nákvæmari. Hugmyndin að fylla mallakút og þjóra út í eitt með góðum vinum eða fjölskyldu. Þó ótrúlegt magn áfengis renni niður kverkar fólks eru Þjóðverjarnir meistarar að takast á við það og drykkjulæti á hátíðinni merkilega fátíð og þá oftar en ekki vegna aðkomufólks.

Ýmsar hefðir tengjast hátíð þessari og útlendingar margir tengja Oktoberfest við leðurbuxur, jóðl og þvíumlíkt. Jóðlið heyrist vissulega en venjuleg poppmúsík er þó algengari í bjórtjöldum. Reglur kveða á um að í þeim skuli aðeins spila rólega og lága tónlist til klukkan sex alla daga sem hátíðin stendur. Er það gert til að gera þeim sem eldri eru og þola verra háa tónlist kleift að vera með. Eftir þann tíma er hins vegar allt leyft.

Þá er líka leyft að reykja í bjórtjöldunum frægu og ólíkt því sem gerist annars staðar í landinu eru það ekki reykingamenn sem fá úthlutuðu reykingaplássi heldur öfugt.

Hátíðin er sýnu fjörugust síðustu dagana en sökum mannmergðar er ekki verra fyrir fólk að eyða frekar nokkrum dögum hér við upphaf eða miðju hátíðarinnar og þá sérstaklega í miðri viku en ekki um helgar. Þannig er mun auðveldara að fá sæti og afgreiðslu en annars. Opinber heimasíða hér.

Októberfest hefst um miðjan september ár hvert en nákvæm dagsetning getur rokkað aðeins milli ára. Hátíðin kemur sannarlega við pyngjuna því allt er hér dýrt og einn einasta bjór í bjórtjaldi fæst vart ódýrari en á 1.200 til 1.400 krónur. Maturinn í tjöldunum er einnig nokkuð dýr en hér er líka fjöldi skyndibitastaða og hefðbundinna veitingastaða þar sem verð er viðráðanlegra. Mælt er með því að bóka gistingu eigi síðar en hálfu ári fyrir upphaf hátíðarinnar. Gisting er fokdýr og verður dýrari eftir því sem nær dregur.

Icelandair og Lufthansa fljúga rakleitt á milli Íslands og München.


View Bestu partí Evrópu in a larger map