Allir sem vitnað hafa með eigin augum eru sammála. Það er vart til mikilfenglegri sjón í veröldinni allri en vera í návígi við fleiri hundruð milljónir kóngafiðrilda sem öll halda þétt til á svipuðum slóðum í hálöndum Mexíkó að vetrarlagi.

Að ganga um meðal kóngafiðrildanna í fjöllum Mexíkó verður ekki lýst með orðum.

Svo mjög þykir sýnin mikilfengleg að margir tala um vetrarstaði kóngafiðrildisins sem hreina og beina paradís á jörð. Það má vægast sagt vera harðbrjósta manneskja sem ekki kemst við þegar þúsundir og jafnvel tugþúsundir einhverra fallegustu og stærstu fiðrilda heims flögra um á litlum bletti í fjöllum Mexíkó. Svo ekki sé minnst á þegar milljónir þeirra raða sér svo þétt upp að risavöxnum trjám á svæðinu að vart sést tangur né tetur af trjánum sjálfum.

Merkilegt nokk, í landi þar sem alvarleg spilling er þjóðaríþróttin og glæpagengi myrða fólk jafnvel að gamni sínu, hafa kóngafiðrildin fallegu að mestu leyti fengið að vera í friði. Svæði þeirra að hluta til fengið friðun frá stjórnvöldum.

En nú ber alvarlegan skugga á. Fréttastofan AP greinir frá því að fyrsta sinni hafi fundist stór, ólögleg lárperuræktun, avokadó, á því svæði sem friðað er vegna fiðrildanna.

Nú kann einhver að spyrja hvers vegna það sé stórmál. Svarið við því er að vinsældir avokadó í vestrænum heimi hafa aukist svo mjög að ræktunin færir bændum í Mexíkó tvöfalt hærri tekjur en nokkur önnur ræktun í landinu. Allt bendir til að eftirspurnin muni aukast töluvert í framtíðinni.

Góðar fréttir fyrir fátæka bændur í Mexíkó sannarlega. Öllu verra að besta ræktarland fyrir avokadó er í sömu hæð í sömu fjöllum og fiðrildin fallegu kalla heimahaga. Sé tillit tekið til algjörs getuleysis stjórnvalda í landinu til að stemma stigu við einu né neinu er því miður óhætt að slá föstu að dagar fiðrildanna eru taldir. Það kann að taka ár eða tvö eða áratugi í besta falli en það gerist að lokum.

Því þjóðráð að setja ferð hingað á oddinn fyrr en síðar og geta kannski montað sig við barnabörnin að hafa upplifað einhverja fallegustu sjón jarðar áður en það var of seint.