Þ eir heita Litli-Tsingy og Stóri-Tsingy og ef nöfnin hljóma undarlega bíddu þangað til þú kemur á staðinn. Staðirnir gerast ekki mikið undarlegri.

Fólk verður steini lostið og skógar líka ef marka má Bemaraha þjóðgarðinn í Madagaskar

Fólk verður steini lostið og skógar líka ef marka má Bemaraha þjóðgarðinn í Madagaskar

Um er að ræða ægifagran þjóðgarð á afrísku eynni Madagaskar þar sem sérstakt jarðlag og rakt loftslag hafa skapað heilan skóg úr kalksteini. Svo ægifagran reyndar að það tók heimsminjanefnd Sameinuðu þjóðanna sirka fimm mínútur að setja Bemaraha þjóðgarðinn, þar sem Tsingy litli og stóri eru staðsettir, á lista sinn yfir stórmerk náttúruleg undur heims.

Ástæða steinskóganna hefur að gera með votlendi á þessu sama svæði sem étur inn í kalksteininn jafnt og þétt og skapar ýmis konar stórskrýtin form því samfara. En ólíkt því sem gerist annars staðar þar sem kalkstein er að finna í votlendi þá er vatnið ekki aðeins að vinna á steininum lárétt heldur einnig lóðrétt. Þar er um að kenna röku loftslaginu og sérstökum aðstæðum í loftinu á eynni.

„Skógarnir“ hafa enn sem komið er tiltölulega lítt verið rannsakaðir en þó hafa verið kortlagðar vel yfir 200 dýrategundir sem hér halda til auk fjölda plantna sem hvergi finnast annars staðar.

Einungis er hægt að heimsækja hluta svæðisins og aðeins með leiðsögn löggiltra heimamanna. Hingað er aðeins komist á stærri bílum enda yfir ár og vöð að fara. Sem minnir þægilega á annan sérstakan stað í veröldinni þar sem slíkt er algengt.  Vart þarf að taka fram að hjólastólaaðgengi er ekkert.