Skip to main content

H eimurinn er stórkostlegri en nokkur gerir sér grein fyrir. Til marks um það finnast þó nokkrir staðir á jarðarkringlunni þar sem þú getur sólað þig í buff í 30 plús stiga hita við ströndina og klukkustund síðar rennt þér niður stórfínar skíðabrekkur án þess svo mikið sem blikka auga.

Eldvörp þeirra Sikileyinga leiða skíðafólk niður Etnu. Mynd EtnaSci

Við höfum áður sagt lesendum okkar frá tiltölulega fínni skíðaaðstöðu við eldfjallið Teide á Tenerife eins og lesa má um hér. Þá höfum við einnig bent áhugasömum á að fyrirtaks skíðasvæði finnst í rösklega klukkustundar fjarlægð frá hinum vinsæla sólarstað Antalya í Tyrklandi. Auðvitað ekki alveg gengið að nægum snjó vísum allan ársins hring en þess virði að láta vaða ef aðstæður leyfa.

En við vorum ekki búin að benda þér á príma skíðasvæði á toppi Sikileyjar. Skíðasvæði sem er opið meira og minna allt árið ólíkt hinum fyrrnefndu og algjör hending ef skíðalyfta eða tvær eru ekki opnar áhugasömum.

Jamm, fáir setja samasemmerki milli skíðaiðkunar og Sikileyjar í Miðjarðarhafinu. Ítalska eyjan auðvitað þekktust fyrir mafíósa sem gert hafa út hér frá aldaöðli. Og að sjálfsögðu eldfjallið Etnu sem reglulega minnir á sig með tilkomumiklum gosum.

Það er einmitt á Etnu sem færi gefst að skíða um hinar og þessar trissur því á þessu mikla fjalli er ekki aðeins eitt skíðasvæði heldur tvö. Á báðum stöðum er algengt að hægt sé að skíða með bravúr í tíu mánuði ársins þó reyndar færið sé upp og niður eins og gengur.

Skíðasvæðin sem um ræðir er annars vegar Rifugio Sapienza í suðurhlíð Etnu og Piano Provenzana norðan megin í fjallinu. Bæði svæði einnig vinsæl fyrir göngufólk og náttúruunnendur almennt. Auðvelt að komast á báða staði en óvitlaust að rabba við ferðaþjónustfólk í borgum og bæjum til að fá kostakjör á túr og skíðapassa.

Bara skal hafa í huga að Etna gýs svona sirka þegar henni sýnist og það yfirleitt með engum fyrirvara. En hverjum finnst ekki gaman að lifa dálítið djarft 🙂