R itstjórn gist á allnokkrum hótelum erlendis sem ekki stóðust loforð þegar til kom og hvers starfsmenn vildu ekkert fyrir okkur gera þegar kvartað var. Hvað er til ráða í slíkum tilfellum?

Oft reynast hótel verri en lofað var…

Í einu tilfellinu var gist í tvær vikur á fimm stjörnu hóteli með morgunverði plús fjórum fríum ferðum á heilsuhæli hótelsins þann tíma sem gist var. Fyrsta daginn kom í ljós að heilsuhælið var lokað allan þann tíma sem gist var vegna löngu ákveðinna breytinga sem hvergi voru auglýstar.

Í öðru tilfellinu kom í ljós að þakbar/veitingastaður með magnað útsýni á fjögurra stjörnu hóteli, sem var stór hluti af því að bóka á þeim ákveðna stað, reyndist lokaður yfir vetrartímann þegar til kom. Ekkert á það minnst við bókun eða tiltekið á neinn hátt.

Hvað gerðum við eftir að hótelstarfsfólk á báðum stöðum sýndu því engan lit að gefa afslátt af einu né neinu þrátt fyrir að lofa hlutum sem ekki stóðust?

Ýmislegt 🙂 🙂  🙂

Látum ekki taka okkur í þurrt ef við fáum ekki þá þjónustu sem okkur er lofað og þú ættir ekki að taka því heldur.

Aðaltrixið er að koma alfarið í veg fyrir að gististaðurinn græði á því að hafa þig sem gest. Á suðrænum slóðum er það næsta auðvelt enda bæði rafmagn og vatn fokdýr forréttindi.

Trix A: Kveiktu á öllum ljósum í herberginu/íbúðinni og hafðu kveikt á þeim allan tímann sem þú dvelur á staðnum. Dag og nótt.

Trix B: Settu allt í samband við rafmagn sem þér mögulega dettur í hug og hafðu það í sambandi allan tímann. Farsímar, fartölvur, unaðstæki…

Trix C: Láttu heita vatnið renna eins og það sé 1999 og sturtaðu niður tvisvar í hvert sinn til að vera viss um að skítabletturinn hverfi nú hundrað prósent.

Trix D: Ef á stóru hóteli notaðu stærstu lyftu sem finnst í hvert sinn. Ef á litlu hóteli farðu þá „óvart” á vitlausar hæðir mjög reglulega. Fátt sem gleypir meira rafmagn.

Trix E: Bókaðu borð á veitingastað hótelsins en hættu við með fimm mínútna fyrirvara. Aftur og aftur 😉

Trix F: Notaðu öll handklæðin þó ekki sé nema til að snýta þér. Það merkir að skipta þarf um allt draslið hvern einasta dag.

Ofangreind trix ættu að öllu eðlilegu að eyða algjörlega öllum hagnaði sem viðkomandi hótel/gististaður græðir á að hafa þig sem gest og jafnvel setja gistingu þína í hreinan fjárhagslegan mínus fyrir staðinn. Þetta á sérstaklega við um hótel í heitari löndum heims enda kostar bæði rafmagn og vatn þúsundfalt meira en heima á Fróni í flestum þeirra.

Víst er ekkert af ofangreindu jákvætt fyrir veröldina okkar og óskandi væri að enginn þyrfti aldrei að eyða hita né rafmagni að gamni sínu. En ef þú lendir í þeim aðstæðum að fá ekki það sem þú greiddir fyrir og áttir von á, er þetta príma leið til að gististaðurinn gjaldi fyrir án þess að þú leggir inn prumpeinkunn á samfélagsmiðlum sem kannski enginn les nokkurn tímann. Og að gististaður þurfi að punga út seðlum þegar eitthvað er ekki eins og lofað var er þúsundfalt betri leið til árangurs en væl á Tripadvisor…