Þ að eru sannarlega takmörk fyrir hvað fjölskylda og vinir nenna að hlusta á ferðasögur frá Benídorm eða horfa á myndbönd frá Disneyworld í Orlando. Það eru hins vegar góðar líkur að húsfyllir yrði á heimilinu eftir ferð með hinni merkilegu, og fyrrum alræmdu, Síberíuhraðlest.
Ólíkt fyrri tímum þegar Síberíulestin flutti hundruðir þúsunda til þrælkunar í fangabúðum er ferðin í dag öllu gleðilegri og ber flestum saman um sem reynt hafa að um einstaka upplifun sé að ræða. Hins vegar er brýn þörf að hafa áhuga á lestarferðum því um langan veg er farið og af þeim fjölda mismunandi lestarfyrirtækja sem slíkar ferðir bjóða eru fáir að bjóða upp á mikinn lúxus þó á því séu undantekningar.
Ýmsar mismunandi ferðir eru í boði og hægt að leggja upp frá Pétursborg, Moskvu eða hinu megin frá frá Vladivostok. Ellegar fara leið sem gerist vinsælli með hverju árinu, Mansjúríuleiðina, og hefja eða enda ferðalagið í Kína.
Reyndar geta menn leikið sér helling með leiðina því lestarkerfi Evrópu tengjast því rússneska sem aftur tengist því kínverska og frá Kína er líka hægt að fara áfram um Asíu. Með góðri skipulagningu væri því tæknilega hægt að stíga um borð í Amsterdam eða París og stíga frá borði í Hong Kong eða Víetnam mánuði síðar eða svo. Allt er mögulegt.

Fjölmargir möguleikar í boði ef menn vilja með lest um Síberíu
Slíkar lestarferðir standa allt frá 13 dögum og upp í tæpan mánuð og kosta frá 190 þúsundum og langt uppúr þegar þetta er skrifað. Allt eftir þjónustu og þægindum um borð. Og þó flestar lestanna séu ekki hraðlestir þá bjóða minnst tveir aðilar upp á express túra sem komast nálægt því að vera hraðlestarpakki. Það kostar þó duglega eins og sjá má hér og hér.
Þá bjóða flest fyrirtækin upp á „af og á“ ferðir. Með slíkum miða er mögulegt að stökkva af hvar sem stoppað er á leiðinni og gert sér dagamun í nokkrum bæjum eða borgum sólarhring eða svo áður en áfram er haldið.