Þ að finnast enn stöku búllur í París sem státa sig af óbreyttum hefðum hundrað ár aftur í tímann eða jafnvel lengur. Sem út af fyrir sig er merkilegt nú þegar flestir rekstraraðilar breyta stöðum sínum á fimm mínútna fresti til að freista nýrra kynslóða. Einn staður sérstaklega sker sig þó úr.

Athygli okkar var vakin árið 2014 við heimsókn í Metropolitan-safnið í New York. Þar héngu á vegg allmörg verk hins litríka, spænska listmálara Pablo Picasso. Verk sem oftar en ekki voru og eru súrrealísk út í eitt.

Nema hvað eitt verkanna var eilítið öðruvísi en öll hin. Þar gaf að líta næstum því venjulegt fólk á mynd eftir meistarann. Mynd sem sést hér til hliðar en sú var seld á uppboði fyrir þremur áratugum fyrir litla fimm milljarða króna. Myndin heitir Á Lapin Aguile og sýnir þrjá einstaklinga á kabarettbar einum í París. Einstaklingarnir eru Picasso sjálfur í forgrunni, ástkona hans á þeim tíma og í bakgrunni situr maður og spilar á gítar. Sami maður og greiddi Picasso fyrir að mála myndina atarna. Barinn sem um ræðir er Lapin Aguile (Fima kanínan) í seilingarfjarlægð frá hinni frægu hvítu kirkju Sacre Coeur.

Inni í þessu húsi er frönsk kabarettstemmning allar nætur og hefur svo verið síðan 1860.

Og viti menn! Barinn atarna er enn starfandi og ólíkt mörgum öðrum þekktari kabarettstöðum Parísar, er enn að mestu með sömu gömlu þreyttu innréttingarnar og þegar Picasso vandi komur sínar hingað. Sem auðvitað gerir staðinn að príma stoppi ef ferðafólk hefur áhuga á að prófa kabarettstemmara eins og hann kom beint af kúnni fyrir 150 árum síðan.

Lapin Aguile er ekkert sérstaklega þægilegur staður og við fyrstu sýn lítur þetta út fyrir að vera eldgamalt yfirgefið íbúðarhús. Staðurinn lítill og þröngur, trébekkir og tréborð fortíðarinnar látið duga og eins og frönskum er gjarnan tamt þá er þjónusta ekki endilega upp á marga fiska. Þá er aðeins í boði að kaupa áfengt af barnum og ekkert er hér eldhúsið.

Á móti kemur að þú ert að heimsækja stað sem margir vilja meina að sé elsti kabarettstaður Parísar og enn stígur á stokk hér listafólk nánast hvert einasta kvöld og fer með sitt fyrir framan gesti og oftar en ekki eingöngu á frönsku. Sem er stór plús að okkar mati. Hér halda menn í hefðir og venjur og láta ekki erlenda ferðamenn hafa nein áhrif á það.

Toppstopp ef þú finnur þig í París einn góðan veðurdag og vilt eitthvað aðeins meira en þetta hefðbundna túristastöff.

Heimasíðan.