Allt viti borið ferðafólk gerir sér far um að kynnast kúltúr og menningu þeirra þjóða sem heimsóttar eru á ferðalögum. Þar með talið að prófa hina ýmsu þjóðlegu rétti sem landið státar af. En í Kína gæti það verið heilsuspillandi.

Jafnvel allra einföldustu réttir í Kína geta verið troðnir af baneitruðum aukaefnum.
Kapítalisminn hefur aldeilis gert innreið sína í „kommúnistaríkið” Kína síðustu áratugina og það með meiri bravúr en í Bandaríkjunum um miðbik síðustu aldar.
Það auðvitað merkir að allir reyna að hámarka hagnað eins og mögulegt er og í Kína hjálpar töluvert að opinbert eftirlit er í mýflugumynd. Það því auðvelt að sneiða fram hjá lögum og reglum án þess að eiga mikið á hættu.
Dæmin skipta hundruðum. Til dæmis sú staðreynd að helmingur matvælafyrirtækja í Kína standast ekki lágmarkskröfur sem gerðar eru til matvælaöryggis á Vesturlöndum. Til dæmis sú staðreynd að veik dýr og jafnvel dauð frá dýrabúum eru engu að síður seld á mörkuðum til veitingahúsa og verslana. Til dæmis sú staðreynd að Kínverjar nota FIMMFALT meira af eiturefnum í landbúnaði en næsta þjóð á eftir. Til dæmis sú staðreynd að í einfaldri núðlusúpu á veitingastað finnast gjarnan leifar af formalíni (gjarnan notað til að varðveita líkamsleifar), blýi (þungmálmur), kadmíum (þungmálmur), arseniki (eiturefni) og borax (sýra sem gjarnan er notuð í þvottefni.)
Óhætt er að draga þá ályktun að ef vinsæl og einföld núðlusúpa getur innihaldið slíkan viðbjóð má finna töluvert verri hluti í öðrum kínverskum matvælum…







