M eð tilliti til að landsmenn virðast margir hverjir vera komnir í 2007 gallann sinn á nýjan leik er ekki úr vegi að benda þeim sem nóg eiga af peningunum á að nú er hægt að gista á sérhönnuðu Louis Vuitton hóteli.

Hingað til hafa hótel Louis Vuitton verið nýbyggingar en ekki hér. Mynd white1921

Fátt amalegt við gamalt hótelið og útigarðurinn ekkert slor heldur. Mynd white1921

Það mun vera hið fyrsta sinnar tegundar sem sérstaklega er hannað fyrir þessa frægu og dýru tískukeðju og vitaskuld er staðsetningin í lúxusparadísinni Saint Tropez í Frakklandi.

Keðjan er þó töluvert á eftir í bransanum því bæði Karl Lagerfeld og Armani hafa fyrir allöngu boðið upp á hótelgistingu á samnefndum lúxushótelum. Sá fyrrnefndi skammt frá í Saint Tropez en Armani rekur meðal annars hótel í El Burj turninum í Dúbai.

Hótel er þetta þó ekki í eiginlegri merkingu hjá Vuitton vini okkar. Öllu nær er að tala um glæsilega villu enda aðeins sex herbergi í boði og öll vitaskuld töluvert vistlegri og lúxuslegri en raunin er á Hótel Sögu.

En gistingin er bara byrjunin. Barinn þykir merkilegur og ekki síður það sem er þar í boði. Enginn billegur Egils gull af krana hér heldur eingöngu hvítt og rautt og bölvaður nískuháttur að biðja um neitt annað en 20 ára gömul vín sem kosta ævilaun verkamanns.

En Vuitton má eiga að lúxusgistingin per se er ekki alveg út úr korti peningalega. Ódýrasta herbergið í White 1921 eins og hótelið heitir kostar ekki nema tæpar 45 þúsund krónur miðað við gengið í desember 2019. En hver vill gista í einhverri afdalakompu? Nær lagi að færa sig aðeins ofar í skalann og borga 157.000 krónur fyrir nóttina. Í svítunni að sjálfsögðu.

Frekari upplýsingar á heimasíðu hótelsins hér en ef förinni er heitið á þessar slóðir og Vuitton ekkert í uppáhaldi má kanna önnur hótel á svæðinu hér að neðan.