P uerta del Sol heitir Lækjartorg þeirra sem kalla Madríd á Spáni heimaborgina. Þar er nánast öllum stundum ársins eitthvað á seyði og fólk á ferli 24/7. Þar er líka eitt best geymda „leyndarmál“ borgarinnar: La Placa del Kilometro Cero.

Miðja Spánar finnst nákvæmlega á helsta miðborgartorgi Madríd.

Endur fyrir löngu var Plaza Mayor miðpunktur Madríd og þar með miðpunktur Spánar því hér sátu kóngar og krúsídúllur sem öllu réðu í landinu og oft með hrapallegum afleiðingum fyrir landann.

Plaza Mayor er ennþá tilkomumikið torg enda innilokað á alla kanta af fallegum eldri byggingum og því sérdeilis frábær staður til slökunar ef vindar blása í höfuðborginni. Hér líka töluvert um að vera svona heilt yfir þó reyndar hér sé of mikið gert út á túrista með tilheyrandi háu verðlagi.

En Plaza Mayor er elliheimili á Hvammstanga samanborið við Puerta del Sol eða Sol eins og heimamenn kalla torgið. Það er við í og við Sol sem þú finnur stórverslanir á borð við El Corte Inglés og Apple. Það er við Sol sem þú finnur helstu samgöngumiðstöð borgarinnar og það neðanjarðar og það er við Sol sem þú finnur nafla Spánar. Þú þarft þó aðeins að hafa fyrir ef þú veist ekki nákvæmlega hvar „naflinn“ er.

Fyrir þá sem ekki þekkja söguna þá er Madríd algjörlega „tilbúin“ borg að því leyti að hér var ekkert nema stakt strá þegar einn konunga landsins, með vitsmuni á við Donald Trump, ákvað að byggja hér höfuðborg og það fyrir miðju landsins svo hermenn konungs kæmust með hvað skemmstum hætti í allar áttir ef einhver kotbóndi væri með stæla eða ef herir óvinaríkja væru með vesen. Skipti þá engu máli að hér var nákvæmlega ekkert sem gaf til kynna að þetta væri staðurinn til að planta rassi.

Ekki þar fyrir að Madríd er kostuleg borg nú á dögum og hefur verið lengi. Það breytir ekki þeirri staðreynd að staðsetningin er alveg hreint fáránleg. Eins hátt uppi og hægt er í landinu og fjarri öllu sem getur talist náttúrlega gjöful staðsetning. Hér er til dæmis ekkert vatn og til að svala þorsta borgarbúa þarf að dæla þeirri dásemd fleiri hundruð kílómetra.

Látum þó vitsmuni liggja milli hluta í bili. Punkturinn hér er sá að La Placa del Kilometro Cero, sem útleggst gróflega sem núllpúnktur, og á samkvæmt fræðunum að merkja miðju landsins, er að finna í Puerto del Sol og það enn nákvæmar fyrir utan það sem áður var pósthús borgarinnar. Það er sem sagt blettur fyrir utan gamla pósthús borgarinnar sem á að merkja landfræðilega miðju Spánar alls. Ekki leiðinlegt að drepa niður fæti þar og taka sjálfsmynd eða tvær.

Alas, galli á gjöf Njarðar hér sem endranær. Hver vitiborin manneskja með fulla sýn og kort af Spáni gerir sér ljóst að hér liggur flagð undir fögru. Nánar tiltekið er þetta hvorki miðja Spánar né miðja Madríd. Nálægt já, en enginn vindill.

Placa del Kilometro Cero er því í raun EKKI miðja Spánar eins og flestar ferðahandbækur og heimamenn sjálfir vilja vera láta.

Sem breytir ekki því að það er soldið sexí að eiga mynd af sér í miðju Spánar ekki satt 🙂

Nánar um dásemdir Madríd hér.