Skip to main content

Úpps! Þar fór sennilega síðasti möguleiki Skúla Mogensen að komast inn um Gullna hliðið til himnaríkis þegar sá tími kemur.

Dauðsfall í fjölskyldu rétt fyrir flug með Wow Air. En milljarðamæringnum Mogensen þykir það engin ástæða til endurgreiðslu. Skjáskot

Eðli máls samkvæmt þurfa lággjaldaflugfélög að standa extra hart á sínu þegar kemur að veseni viðskiptavina. Það segir sig sjálft þar sem þau bjóða yfirleitt lægri fargjöld án mikillar þjónustu og ef stöku einstaklingar lenda í veseni getur það fljótt kostað lággjaldaflugfélög mikla peninga. Sem aftur getur snúið hagnaði í tap á augabragði þar sem álagningin er svo lítil.

Það er í því tilliti skiljanlegt að flest lággjaldaflugfélög heims séu miklu harðari og leiðinlegri en þessi hefðbundnu flugfélög þegar eitthvað alvarlega bjátar á hjá fólki.

En á köflum eiga hagnaðarsjónarmið alls ekki við og skiptir þá engu hvort umræddum viðskiptavini er sjálfum um að kenna eða ekki. Það er stundum bara þannig að fyrirtæki ættu að láta gróðasjónarmið víkja fyrir þessu mannlega. Eins og til dæmis þegar einstaklingur óskar endurgreiðslu á flugfargjaldi sökum dauðsfalls í fjölskyldunni.

Klárlega geta flestir keypt forfallatryggingar hjá flestum flugfélögum og margir gera það til öryggis. Þær dekka margt og mikið en þó ekki dauðsfall vinar eða náins ættingja skömmu fyrir flug. Og hver er í stuði fyrir Aloha á Hawaii eða Horos í Grikklandi þegar besti vinurinn, vinkonan, móðir, faðir, systir eða bróðir falla frá skömmu fyrir flug?

Leyfist okkur að svara þeirri spurningu: alls enginn!

Engu að síður dettur Mogensen og hans fólki hjá Wow Air ekki til hugar að endurgreiða sent af fargjaldi eins sem í þessu lenti nýlega. Viðkomandi fær ekki einu sinni farangurskostnaðinn endurgreiddan fyrir flug sem hann ætlar alls ekki að fara með tilliti til aðstæðna!!!

Allt ofur eðlilegt við þetta. Og nú vitum við hvaða íslenski einstaklingur getur flokkast sem Miskunnarlausi Samverjinn. Enn ein fjöðurin í hatt herra Mogensen.