L engi vel fannst lítið sem ekkert í ferðahandbókum um Largo di Torre Argentina í Róm. Ekki var einn stafur um staðinn þegar einn úr ritstjórn bókstaflega gekk hugsunarlaust fram á hann rétt fyrir síðustu aldamót. Öldin önnur nú en samt gera ekki margir sér grein fyrir hversu merkilegur staður þetta er.

Geðveikt að labba fram á aldagamlar rústir mitt í íbúðahverfi. En fleira kemur til.

Largo di Torre Argentina fer framhjá mörgum ferðamönnunum í Róm sökum þess að staðurinn er umlukinn tiltölulega ljótum og þreyttum íbúðablokkum á alla vegu. Eitt og eitt skilti finnst hér en hvað varðar söguna er hvorki sérhljóði né samhljóði. Enginn nokkru nær sem hingað kemur ef viðkomandi hefur ekki kynnt sér málið fyrirfram.

Largo di Torre Argentina er samt tilþrifamikill. Hér eru á svæði á stærð við fótboltavöll kynstrin öll af eldgömlum rómverskum minjum og vel varðveitt miðað við önnur eldgömul mannvirki í Rómarborg.

Sjón að sjá vissulega en ferðalangar myndi kannski stoppa lengur við ef þeir þekktu sögu staðarins líka. Largo Argentina er nefninlega vettvangur þess sem kannski er frægasta morð í mannkynssögunni. Nánar tiltekið þegar keisarinn og herforinginn Júlíus Sesar var veginn af Brútusi vini sínum. Það var hér sem hin frægu orð; et tu Brute, féllu af vörum Sesars áður en hann lést eftir tuttug hnífsstungur í kviðinn.

Enn þann dag í dag eru ferðahandbækur sem tiltaka rómverska þingið, Forum Romanum, sem dánarstað Sesars en raunin er sú að fornleifafræðingar hafa komist að því að þingstaðurinn sá var lokaður vegna viðgerða þegar Sesar var veginn. Það er þess vegna sem að þingið kom saman hér í Largo Argentina og Sesar dó drottni sínum.

Með þessa vitneskju í kollinum verða afar merkilegar rústir á afar merkilegum stað töluvert merkilegri en ella 🙂

PS: kattaunnendur sem hata sögustundir ættu samt að leggja leið sína að Largo di Torre Argentina. Þó ekki sé nema vegna þess að svæðið er girt af og lokað hafa hér hreiðrað um sig hundruðir flækingskatta sem una hag sínum betur en vel.