Á ttu dag til að eyða? Tvo? Eða þrjá? Líkur eru á að hafir þú hug að skoða alla þá leyndardóma og miklu fegurð sem höll, virki og garðar Alhambra búa yfir þarftu allan þann tíma sem þú mátt missa. Í staðinn færðu minningar um stórkostlegan og einstakan stað sem á sinn réttmæta sess í sögunni. Velkomin til Alhambra.

Stórkostleg völundarsmíð er Alhambra og hægt að una sér hér lengi vel

Stórkostleg völundarsmíð er Alhambra og hægt að una sér hér lengi vel

Það tekur um það bil þrjár klukkustundir að heimsækja Alhambra frá vinsælum áfangastöðum Íslendinga á Costa del Sol eða Costa Blanca. Er þá ekið gegnum hæðótt en berangurslegt land mestan tímann og næsta ekkert gefur til kynna hvora leið sem farið er að eitthvað markvert sé á næsta leyti.

Þótt höllin rísi hátt yfir byggðinni í borginni Granada sem sjálf fer seint í bækur sem merkilegur staður þarf að aka nokkurn spöl inn í hana til að berja loks augum virkisveggina og jafnvel þá vakna grunsemdir um að Alhambra sé nú ekki alveg þessa ferðalags virði.

Það er nefninlega ekki fyrr en komið er innfyrir að augun galopnast af undrun og furðu og vart er tekið skref eftir það án þess að skynja undur og stórmerki hvort sem er í stórkostlegum görðum staðarins eða mikilfenglega byggingalistina. Fagurlega skreyttar byggingar eru hver annarri stórkostlegri. Útsýn er glæsileg yfir borgina fyrir neðan og langt til suðurs. Gosbrunnar og garðar innan veggja Alhambra eru einstakir og þrátt fyrir mikinn fjölda ferðamanna þar daginn út og inn er vel hægt að finna sér bekk undir trjám eða runnum og finna kyrrð og ró sem sæti maður á bökkum Herðubreiðalinda.

Alhambra var reist af Márum á fjórtándu öld en nafnið er arabískt og þýðir „hið rauða“ en ekki er mönnum enn ljóst hvort það var vegna rauðleits jarðvegarins sem notaður var við byggingu Alhambra eða hvort heitið tengdist með einhverjum hætti Ibn Nasrid en sá byggði þá Alhambra sem við þekkjum í dag á rústum annarra og ómerkilegra virkisstaða sem þar stóðu áður.

Garðar Alhambra eru yndislegri en orð fá lýst

Garðar Alhambra eru yndislegri en orð fá lýst

Márar héldu fyrst innreið sína til Spánar árið 711 og gerðu Granada og Alhambra að bækistöð sinni og borg í kjölfarið. Höllin og virkið var byggt síðar til að sporna gegn ágangi spænska konungsveldisins sem vildi losa Spán alfarið undan áhrifum Mára sem um tíma réðu lögum og lofum í öllum suðurhluta landsins. Alhambra var síðasti griðastaður Mára og Múslima annarra áður en yfir lauk árið 1492 þegar sameinaðir herir Karls V konungs Aragon og Ísabellu drottningar yfir Castillu yfirbuguðu loks her Mára og náðu Alhambra á sitt vald. Í kjölfarið byggðu ýmsir konungar sín eigin hof á grundum Alhambra en í hundruð ára eftir það var Alhambra í algjörri niðurníðslu. Stór jarðskjálfti á átjándu öld jafnaði svæðið næstum við jörðu og skömmu síðar hugsaði Napóleón sér gott til glóðar að gera slíkt hið sama þegar franska hernum gekk sem verst gegn þeim spænska í stríðum landanna.

Til umhugsunar: Mikill ferðamannastraumur er til Alhambra allan ársins hring en sýnu mest yfir sumarmánuðina. Mikilvægt er að gefa sér allavega þrjár klukkustundir til að skauta yfir það helsta sem þar ber fyrir augu en áhugamenn um listir, sögu og menningu ættu að gefa sér heilan dag hið minnsta. Langar raðir myndast á háannatíma og er vænlegast að panta miða og leiðsögn fyrirfram svo ekki fari tími til spillis við miðasöluna. Ekki er heimilt að fara inn í allar byggingarnar á svæðinu nema í fylgd leiðsögumanna en það er fyllilega þess virði. Þá er og vænlegt að vera hér snemma dags því byggingar hér eru lítið upplýstar eftir að skyggja tekur.

Stækkanlegt kort af Alhambra og borginni Granada ásamt helstu ökuleiðum hér.

Opið er hér alla daga frá klukkan 8:30 en miðasalan á staðnum opnar hálftíma fyrr. Yfir vetrartímann er opið til kl. 18 en einnig er opið frá kl. 20 til 21:30 á föstudags- og laugardagskvöldum. Á sumrin er jafnan opið vel fram á kvöld nema á sunnudags- og mánudagskvöldum.

Ekki fyrr heldur maður að nú hafi maður séð allt fyrr en farið er fyrir horn og eitthvað nýtt ber fyrir augu

Ekki fyrr heldur maður að nú hafi maður séð allt fyrr en farið er fyrir horn og eitthvað nýtt ber fyrir augu

Aðgangseyrir er 2.200 krónur á mann en afsláttur er veittur fyrir börn og ellilífeyrisþega. Hægt er að kaupa nokkra mismunandi miða er gefa mismunandi aðgang þegar inn er komið. Engin leiðsögn er innifalin í þessum verðum en bæði er hægt að panta slíkar ferðir fyrirfram en ennfremur verða sér úti um leiðsögn á staðnum fyrir smærri hópa.

Mjög áríðandi er, til að forðast vonbrigði og leiðindi að KAUPA MIÐA FYRIRFRAM ef hingað er komið yfir sumartímann. Það er ekki útilokað að fá miða á háannatíma en það getur verið uppselt og þá eru góð ráð dýr. Eina leiðin í þeim tilfellum er að kaupa borgarpassa. Þannig á fólk að komast inn á svæðið en það kostar töluvert meira en annars.

Miðasalan hér.

  • Alhambra er sögusvið eða þema í allmörgum skáldsögum seinni tíma. Helst er þar að nefna Síðasta andvarp Márans eftir Salman Rushdie og Alkemistann eftir Paulo Coehlo.
  • Alhambra var einn þeirra staða sem til greina komu í könnuninni „Sjö ný undur veraldar“ sem yfir hundrað milljón manns tóku þátt í fyrir ekki margt löngu.