Á norðvesturodda Madeira stendur sá bær sem hvað næst kemur höfuðborginni Funchal í vinsældum meðal bæði ferðamanna og heimamanna sjálfra. Porto Moniz heitir bærinn sá.

Porto Moniz, Moniz höfn á hinu ylhýra, heitir í höfuðið á aðalsmanni sem giftist skvísu úr héraðinu og fékk í heimanmund fínt og stórt landsvæði. Þar með talinn Porto Moniz. Kappinn fljótur að leggja nafn sitt við svæðið enda fallegt mjög eins og flest á Madeira.

Bærinn per se er afar lítill, dreifður og að hluta í snarbrattri hæð. Allt þetta þýðir að hér er ekkert merkilegt bæjarlíf að heitið getur. Meðfram klettóttri ströndinni standa hins vegar mörg hótel og margir veitingastaðir, eitt stykki sundlaug, gamalt virki og þyrlupallur. Nokkrum tugum metra frá ströndinni stendur svo lítil en há eyja sem er meira klettur en eyja. Ilheu Mole er magnaður tæplega 100 metra hár klettur og lítill viti efst á toppnum.

Þó Ilheu Mole setji afar sterkan svip á bæinn og útsýni til hafs er það ekki sá klettur sem trekkir. Né heldur þær ævintýralegu háu öldur sem skella hér á sjávargarðinum 24 stundum 365 daga á ári. Hér erum við að tala um öldur sem gefa grimmustu öldum heimavið langt nef. Ölduhæðin hefur hér nokkuð reglulega mælst um 30 metrar og götum næst ströndinni er lokað hér nánast á fimm mínútna fresti þegar mest kveður að.

Það er þó í raun aðeins eitt sem dregur fólk alla leið hingað lengstan veg frá Funchal: sundlaugin, eða sundlaugarnar öllu heldur.

Þetta eru ekki sundlaugar í eðlilegri merkingu þess orðs. Hér finnast nefninlega á tveimur mismunandi stöðum hraunsundlaugar. Hraunsundlaugar eru náttúrulegar sigdældir í hraunbreiðu sem hér rann í sjó fram á sínum tíma. Stór hluti hraunsins storknaði óvenju hratt sökum sterkra sjávarfalla hér og mikillar ölduhæðar. Úr urðu tvö svæði með æði náttúrulegum laugum sem þykja aldeilis fyrirtak til sunds og kælingar þegar heitt er í veðri.
Þetta fyrirbæri er alveg frábært að sjá og upplifa og enginn ætti að heimsækja Madeira án þess að í það minnsta berja náttúrulaugarnar augum. En ekki gleyma að vatnið í „laugunum“ er bara sjóvatn beint af kúnni og öldurnar hér bæta reglulega í. Kuldaskræfur þurfa þó ekki að örvænta. Sjórinn við strendur Madeira fer nánast aldrei undir 20 gráður svo „sundlaugarnar“ eru æði notalegar.

Í Porto Moniz er líka að finna sæmilegt vísindasafn, Centro Ciencia Viva de Porto Moniz, þar sem einmitt er komið inn á hvernig hraunsundlaugarnar urðu til. Hér líka er gamalt virki sem er ekki upp á marga fiska en frítt er inn og undir því virki er nú að finnar sæmilegt sædýrasafn, Aguário de Madeira, með áherslu á þau sjávardýr sem finnast í og við Madeira.

Síðast, en ekki síst, er kostuleg sjón að koma að bænum. Sé komið hér yfir fjöllin gefst ævintýralegt útsýni yfir bæinn og langt til hafs frá snarbröttum hlíðunum fyrir ofan. Sé komið norðanleiðina er ekið eftir vegum sem margir hanga líka utan í snarbröttum klettabeltum. Tilþrifamikil sjón og upplifun.

[/vc_message]