A ð frátöldum harðkjarna nýaldaraðdáendum hringir nafnið Damanhur varla mörgum bjöllum. Það er nafnið sem gefið hefur verið litlum bæjarkjarna í dalnum Valchiusella í norðurhluta Ítalíu. Bæjarkjarna sem er sérdeilis merkilegur.

Vistvænt og sjálfbært og viðurkennt sem slíkt. Damanhur samfélagið á Ítalíu. Mynd Damanhur Society

Damanhur er samheiti 600 manna samfélags sem hér hefur sest að og kallar heimili sitt en hugmyndin byggir á sjálfbærni og að lifa í sátt við náttúru og menn og dass af trúarbrögðum með í kaupbæti. Hefur framtakið tekist svo vel að Sameinuðu þjóðirnar hafa sett staðinn á sérstakan lista yfir sjálfbær samfélög heimsins og þannig veitt ómetanlega viðurkenningu.

Samhliða þeim heiðri hefur Damanhur komist á blað meðal ferðafólks og ekki sérstaklega sökum þess að lífsstíll bæjarbúa sé heillandi þó eflaust hafi það áhrif á einhverja.

Nei, það eru mannvirki sem hér hafa verið byggð sem þykja verulega skemmtileg og sérstök og heimsóknar virði. Temple Halls heitir til dæmis mikið hellakerfi sem liðsmenn hafa grafið hér og skreytt þar veggi með sögu mannkyns á veggjum og loftum. Heilmikið þrekvirki og merkilega vel í lagt miðað við að hér hefur aðeins mannshöndin komið nærri.

Þetta er allt hægt að skoða og kynna sér þetta merkilega samfélag í leiðinni en vel er tekið á móti ókunnum og þeim frjálst að valsa um tímabundið.

Damanhur er í tæplega tveggja stunda fjarlægð frá borginni Tórínó og rúmlega tveimur stundum frá Mílanó. Sannarlega eftirminnilegt stopp fyrir fólk á þessum slóðum með tíma til að drepa.