Dagblöð í Brussel greina frá því í dag að ólíklegt þykir að alþjóðaflugvöllur borgarinnar verði að fullu starfhæfur að nýju fyrr en að nokkrum mánuðum liðnum.

Minningarathöfn um þá sem fórust við flugvöllinn í Brussel. Langur tími er í að völlurinn verði að fullu starfhæfur. Mynd BrusselAirport
Allt að 800 manns hafa unnið sleitulítið að því að hreinsa til á vellinum í kjölfar hryðjuverkanna þar fyrir viku síðan og það starf gengur vel. Sömuleiðis hafa verkfræðingar gengið úr skugga um að byggingin sjálf hafi ekki orðið fyrir alvarlegu tjóni og virðist það ekki raunin.
Engu að síður má búast við miklum töfum og vandræðum á vellinum langt fram eftir sumri því flugstöðin í Brussel er í raun aðeins ein bygging og því ekki hægt að afgreiða farþega nema þar sé allt tipp topp og gott betur því belgísk yfirvöld ætla að auka öryggi allra flugvalla sinna frekar en orðið er og það kostar tíma og peninga.
Stefnt er að því að opna að hluta til í þessari viku en flugmálayfirvöld segja ólíklegt að völlurinn anni nema um 20% af venjulegri umferð fyrst um sinn. Það hlutfall verði svo aukið hægt og bítandi næstu vikur en mánuðir muni líða áður en hægt verður með góðu móti að afgreiða allar vélar á öllum tímum.
Icelandair mun hefja flug til Brussel að nýju á fimmtudaginn kemur samkvæmt bókunarvél flugfélagsins.







